Auður djúpúðga nam Dalina, þangað barst írska kóngsdóttirin Melkorka og Hallgerður langbrók var Dalamær. Ástir og örlög sem lýst er í Laxdælu áttu sér stað í Dölunum og þar hófst veldi Sturlunga. Dalirnir hafa líka fóstrað skáld og fræðimenn síðari tíma, þeirra á meðal Árna Björnsson þjóðháttafræðing sem er höfundur nýrrar bókar, Söguslóðir í Dölum, sem Ferðafélag Íslands gefur út.

„Þetta eru eiginlega 60 ára gömul skrif að stofni til. Ég bjó efnið til fyrir Bókaútgáfu Menningarsjóðs en ekkert varð af útgáfu þess. Svo rakst ég á það í tiltekt og spurði Ferðafélagið hvort það hefði áhuga á því og þar var hlaupið upp til handa og fóta,“ segir Árni. Hann hefur skrifað árbækur fyrir Ferðafélagið um þetta svæði, þar er meira lagt upp úr landslaginu. Nýja bókin fjallar um það sögulega og er prýdd kortum og myndum frá ýmsum tímum. Á forsíðunni eru Laugar í Sælingsdal, vatnslitamynd Collingwoods frá 1897.

Dalirnir eru gamlar heimaslóðir Árna, hann ólst upp á bænum Þorbergsstöðum í Laxárdal til fermingar. „Þorbergsstaðir eru um tíu kílómetrum sunnan við Búðardal, við þjóðveginn, nálægt Laxánni. Langafi minn og afi bjuggu þar og þar er enn búið, en jörðin er ekki í eigu fjölskyldu minnar lengur. Staðurinn kemur lítið við sögu nema hvað þar voru oft haldnir fundir, alveg frá fornöld, því þar skárust leiðir sunnan af Mýrum, utan af Snæfellsnesi, sunnan úr Borgarfirði og norðan úr Hrútafirði.“

,,Ég þóttist finna að gömlu og ráðsettu konurnar voru ekki alltof hrifnar af Guðrúnu Ósvífursdóttur, þótti hún óþarflega lauslát. Auður djúpúðga var þeirra kona því hún var svo ráðsett."

Ég giska á að Árni hafi drukkið í sig sögur og fróðleik úr Dölunum með móðurmjólkinni. „Já, kannski,“ segir hann. „Fólk talaði um Guðrúnu Ósvífursdóttur og hennar samtíðarfólk eins og kunningja, og skiptist í flokka eftir því með hverjum það hélt. Ég þóttist finna að gömlu og ráðsettu konurnar voru ekki alltof hrifnar af Guðrúnu Ósvífursdóttur, þótti hún óþarflega lauslát. Auður djúpúðga var þeirra kona því hún var svo ráðsett. Í Laxdæla sögu er ekkert getið um að Auður hafi verið kristin, bara í Landnámabók. Í Laxdælu kemur fram að til sé orpinn haugur eftir hana, sem er frekar heiðið, en í Landnámabók er sagt að hún sé grafin í flæðarmáli, því hún hafi ekki viljað hvíla í óvígðri mold. Svo það fer eftir höfundum hvaða áherslur eru lagðar.“

Árni minnist þess ekki að hafa átt uppáhaldssögupersónu í uppvextinum. „Auðvitað leist manni misjafnlega á þær, en ég var ekkert upptekinn af því á æskuárum. Var miklu spenntari fyrir Fornaldarsögum Norðurlanda því þar voru svo miklir bardagar. Fannst það meira krassandi efni en eitthvert sálfræðivesen í Íslendingasögunum. En ég fór að vinna við þessi skrif, sem nú eru komin út á bók, þegar ég hafði lokið námi í háskólanum. Gekk bæ frá bæ í Dölunum og þá hafði ég orðið vit á að spyrja fólkið um hvað því fannst.“

Árni naut fulltingis barna sinna við gerð nýju bókarinnar, Mörður sonur hans er ritstjóri hennar og í formála þakkar Árni Emblu Ýr, dóttur sinni, fyrir síðasta yfirlestur. „Frumritið var skrifað á ritvél þess tíma og var alls ekki fullbúið til prentunar, þannig að það voru mörg handtök núna við að koma því í bókarform,“ lýsir hann.

En skyldi Árni heimsækja Dalina oft í seinni tíð? „Á hverju ári, yfirleitt. Þar er vinalegt landslag. Ég hef stundum sagt – við litla hrifningu sveitunga minna – að af því Dalamenn hafi enga háa fossa, tignarlega hamra eða annað stórbrotið til að státa af, þá hafi þeir orðið að búa til sögur um sjálfa sig. Dalirnir eru afskaplega söguríkt svæði, miðað við stærð,og skáld og sagnamenn hafa alist þar upp. Þar má nefna Stefán frá Hvítadal, Jón frá Ljárskógum og Jóhannes úr Kötlum. Jóhannes kenndi sig við Katla, sem eru skoðunarverð náttúrufyrirbrigði í Laxá, það er mynd af þeim í bókinni.“

Í bókinni kemur líka fram að Jökull Jakobsson hafi skrifað sína fyrstu skáldsögu, Tæmdur bikar, í Ljárskógum, 17 ára gamall. „Hann var þar um sumartíma 1951,“ rifjar Árni upp. „Ég var þá heima á Þorbergsstöðum, hann kom og heimsótti mig, við vorum bekkjarbræður.“