Eyfirskir fossar fá að njóta sín á síðunum, ég nálgast þá sem náttúruunnandi og göngumaður og er með stuttar hugleiðingar um hvern og einn, segir séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, um efni bókarinnar Gljúfrabúar og giljadísir sem kemur út hjá Hólum á næstu dögum. Hann kveðst hafa opnað sýningu á fossamyndum á fimmtugsafmæli sínu, 29. október 2010, sem hafi verið vel tekið á Akureyri, Dalvík, Kópavogi og Bochum í Þýskalandi. „Þá höfðum við, ég og vinur minn, Gísli Gunnlaugsson, lagst í heilmiklar fossagöngur mánuðina á undan. Í framhaldinu kviknaði hugmyndin um að gefa myndirnar út í bókarformi. Nú, á öðru stórafmælisári, verður sú hugmynd að veruleika.“

Allir eru fossarnir aðgengilegir, að sögn séra Svavars. „Fólk þarf ekki að leggja í neinar svaðilfarir eða langar göngur til að skoða þá. En það er betra að vera ekki einn. Ég lenti einu sinni í að vera nærri kominn í sjálfheldu á syllu og var utan GSM-sambands.“

Ég bið hann að nefna mér nokkra fossa. „Sá hæsti er í Myrká í Myrkárdal og heitir Geirufoss, Geira var síðasta tröllskessa á Íslandi og henni tengist þjóðsaga. Einn líkist brúðartertu í laginu en hann heitir því rómantíska nafni Hesthússfoss og er í á sem heitir því frumlega nafni Fossá! Svo af því hinn frægi Goðafoss er í næstu sýslu þá verð ég að geta þess að við eigum tvo Goðafossa í Eyjafirði. Annar er í Svarfaðardal og hinn frammi á Mjaðmardal, sá heitir Litli Goðafoss af því Eyfirðingar eru svo hógværir. Eyfirsku fossarnir eru að minnsta kosti hógværir og þeir eru miklu fleiri en þeir sem eru í bókinni en flestir eru nafnlausir í sinni hógværð,“ segir klerkur.

Séra Svavar mælir með giljagöngum. „Það er gefandi að labba gil, þar er fuglalíf og fallegur gróður enda skjólgott í giljum og sérstök angan. Með bókinni minni bendi ég á að einn af kostum þess að búa á Íslandi er að aldrei þarf að fara langt til að upplifa einstaka náttúrustemningu og það eru forréttindi.“