Auður Ottesen er á yfirreið um höfuðstaðinn með nýjasta tölublað af tímaritinu Sumarhúsið og garðurinn í farteskinu. Það er aðventublað, fullt af flottu efni, enda er það við hæfi í lok stórafmælisárs.

Auður býr á Selfossi, ásamt manni sínum, Páli Jökli Péturssyni, og kveðst hlakka til að dreifa blaðinu í búðir í uppsveitum Árnessýslu. „Það er svo notalegt, alger lúxus,“ segir hún en stillir sig alveg um að segja nokkuð neikvætt um bílakraðakið í borginni.

Þótt blaðið hennar Auðar heiti Sumarhúsið og garðurinn þá kemur það sem sagt út á öllum árstímum, fjórum sinnum á ári. „Efnið er ekki bara um sumarhús og garða, það höfðar líka til almennra húsbyggjenda, umhverfissinna, þeirra sem elska að fara úr þéttbýlinu út á land og bara njóta náttúrunnar hvar sem er í heiminum. Auk þess er handavinna og föndur. Þetta er lífsstílsblað,“ útskýrir Auður og getur þess einnig að þrettán bækur hafi komið út á vegum blaðsins.

Sumarhúsið og garðurinn er bæði selt í lausasölu og áskrift. „Ég er með á þriðja þúsund áskrifendur núna, það varð smá kreppudans eftir hrunið, en tryggðin er til staðar hjá fólki og því þykir vænt um blaðið. Ef okkur verður á, sem er orðið sjaldgæfara en áður því ég er með svo góðan prófarkalesara, þá er bara hringt í mig og ég beðin að fara rétt með málshættina okkar og íslenskuna yfirleitt. Pólitísk mál hafa líka farið fyrir brjóstið á fólki, til dæmis þegar skrifað var vinalega um refi og um hvali sem sýningardýr. Þá fengum við uppsagnir frá fólki sem vildi ekki sjá svona í blaðinu sínu. Við eigum þetta blað sko ekki ein.“

Auður rekur upphaf útgáfunnar til Þórarins Leifssonar rithöfundar sem byrjaði 1993 að gefa út dreifiblað í dagblaðsformi undir þessu heiti. Það kom út í tvö sumur með greinum og auglýsingum. Þá keypti Páll blaðið og fékk annan mann til liðs við sig. „Svo kynntist Palli þessari garðyrkjustelpu úr Hveragerði og ég kom inn í útgáfuna með honum 1997, þá breyttum við forminu og skelltum því svo í áskrift árið 2000,“ lýsir hún og heldur áfram. „En nú er Palli dálítið hlaupinn frá verkinu, var svo útsjónarsamur að koma blaðinu yfir á mig og stofna sjálfur ferðaþjónustufyrirtæki. Umbrotið er farið annað en ég píni hann aðeins í að taka myndir.“

Á Selfossi keyptu Auður og Páll stórt hús með stórum garði fyrir sjö árum. Auður rifjar upp að þótt húsið þyrfti mikilla lagfæringa við, enda búið að glíma við jarðskjálfta, þá hafi áherslan strax verið á garðinn. „Það fyrsta sem fór niður var kirsuberjatré. Garðurinn var standsettur á undan baðherberginu.“ Fóruð þið bara bak við tréð og gerðuð þarfir ykkar, spyr ég og úr verður mikill hlátur. „Já, svona erum við vistvæn,“ svarar Auður. Húsið var svolítið opið sár til að byrja með en við byrjuðum strax að halda sumarhátíðir þar og í garðinum fyrir áskrifendur og aðra vini okkar og þar hafa verið að mæta 500 til 1.000 manns. Svo er ég með opið hús einu sinni á vorin og nota garðinn fyrir sýningar og námskeið á ýmsum árstímum.“

Auður er iðandi af áhuga og uppfull af hugmyndum fyrir blaðið. Nú er hún nýkomin frá Kína með þúsundir mynda. „Það er mikilvægt að vera alltaf með eitthvað sem fólk hefur ekki kynnst áður og reyna sífellt að toppa sig.“ Hún kveðst aldeilis ekki vera ein með blaðið. „Við höfum alltaf haft penna nema aðeins kringum kreppuna, þá rifuðum við seglin. Snæfríður Ingadóttur hefur skrifað heilmikið. Mér finnst ég vera með landsliðið í kringum mig, til dæmis í umbroti. Ég er með þjóðfræðing, sérfræðing í ylrækt, landslagsarkitekt, flott fagfólk og góða penna úr ýmsum áttum. Efnið er svo víðfeðmt. Ef ég er með of mikið um sumarhús, fæ ég að heyra það – og öfugt. Ég má ekkert hvað sem er!“