Þó að ég hafi verið talsvert hér fyrir norðan sem barn og unglingur, þá ólst ég upp á Seltjarnarnesi, segir Akureyringurinn Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður. Hann er heima hjá sér í jólafríi þegar ég heyri í honum í tilefni fimmtugsafmælis hans á gamlársdag. 

Njáll Trausti hefur setið á þingi í þrjú ár og segir það áhugavert. Þar hafi hann fengið að sinna ýmsum verkefnum sem honum séu kær, eins og flugmál. Flugumferðarstjórn sé nefnilega ævistarfið. Kveðst hafa útskrifast úr MR vorið 1990 og byrjað að læra f lugumferðarstjórn um haustið, ætlað svo rétt að skreppa norður til dvalar í nokkur ár, en ílengst. Grunur minn um að hann hafi kynnst konu þar reynist réttur.

„Já, það er nú smá saga,“ segir Njáll Trausti glaðlega. Konan mín, Guðrún Gyða, ólst upp á Akureyri og var í MA en fór suður að læra hjúkrun í Háskóla Íslands. Tók svo starfsþjálfun í hjúkrun á barnadeildinni á Akureyri í eitt ár og við kynntumst í Sjallanum einmitt þegar hún var á förum suður aftur. Hún  sagði f ljótlega upp þar og f lutti norður – þökk sé Sjallanum! Síðan eru liðin nokkur ár og við eigum 20 ára brúðkaupsafmæli núna á gamlársdag, á afmælisdaginn minn, þannig að þetta eru mikil tímamót. Við giftum okkur sem sagt 31. desember 1999, um miðnætti átti svo heimurinn að hrynja því tvöþúsundvandinn átti að grýta allt niður.“

Njáll Trausti tilkynnir að þau hjón muni flýja land áður en þessi tvöfaldi afmælisdagur renni upp. „Synirnir og tengdadæturnar ákváðu það í ágúst að við færum út um áramótin. Það verður í fyrsta skipti sem við  heimsækjum Tenerife.“

Áhugi Njáls Trausta liggur ekki bara í fluginu heldur ferðaþjónustu almennt, því tók hann viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri með áherslu á ferðaþjónustu og hagræna þætti hennar. „Þetta var árið 2004 og það var enginn að pæla í þessu þá. Samt eru ekki nema fimmtán ár síðan,“ bendir hann á. „Hagstofan og Seðlabankinn unnu þó fyrir mig gögn vegna lokaverkefnisins því þeim fannst þetta áhugavert.“ Spurður hvort hann hafi starfað við ferðaþjónustu, fyrir utan að stjórna flugumferð fyrir norðan, svarar hann: „Ja, við bræður byggðum upp gistingu hér á Akureyri sem heitir Sæluhús.“

Njáll Trausti var skiptinemi í Bandaríkjunum 1987 til 1988 og kveðst hafa verið svo heppinn að systir konunnar sem hann bjó hjá hafi verið aðstoðarmaður Joes Biden, sem síðar varð varaforseti í tíð Obama og stefnir nú á að verða forseti Bandaríkjanna. Hann hafi því fengið grand túr um Hvíta húsið. „Ég var einmitt í heimsókn í Hvíta húsinu daginn áður en Gorbatsjov og Reagan skrifuðu undir samning um meðaldræg kjarnavopn og eldflaugar sem var að renna út núna um daginn. Ég fékk líka tvö bréf frá Joe Biden, annað vegna þess að ég var markahæstur í fylkinu í menntaskólaboltanum og fékk hamingjuóskabréf frá honum. Svo var blað sem valdi mig íþróttamann fylkisins og ég fékk annað bréf frá Biden upp á það!“

Ýmislegt er tilviljanakennt í lífi Njáls Trausta að hans eigin sögn. Sem dæmi nefnir hann að í Bandaríkjunum hafi hann búið við hliðina á flugherstöð og  kynnst svolítið lífinu þar því um fjórðungur samnemenda hans hafi búið í herstöðinni. Einnig að í Faunu,  grínbók um stúdenta Menntaskólans í Reykjavík, standi að hann hafi sagt að NATO væri friðarbandalag.  „Einn daginn er ég svo allt í einu orðinn formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins,“ segir hann. „Það er margt skondið þegar maður horfir til baka, stundum lítur út fyrir að leiðin hafi verið vörðuð.“ [email protected]