Verkefnið sem hefst á hádegi í dag í Hönnunarsafninu nefnist „Peysa með öllu fyrir alla“ og mun standa fram að HönnunarMars þann 19. maí. Það er framhald viðfangsefnis sem listakonan Ýr Jóhannsdóttir kallaði „Peysa með öllu“ og vann í samstarfi við fatasöfnun Rauða krossins á útmánuðum í fyrra. Þar var vísað í þjóðarréttinn, pylsu með öllu. „Ég fékk peysur sem voru ekki boðlegar í Rauða krossbúðunum en í stað þess að henda þeim vann ég skreytingar út frá blettum eða götum og gaf þeim þannig framhaldslíf. Fyrsta peysan sem ég eignaðist var hvít með slikju að framan og þá greip ég til stíls sem ég hef unnið með síðan þar sem pylsan er þema.

Sviðslistafólk áhugasamt

Ýr er textílhönnuður að mennt og stundar nú meistaranám í Listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Verkefnið í Hönnunarsafninu er hluti af lokaverkefni hennar þar. Einnig er hún í sviðslistahópi og þegar viðtalið er tekið er hún að koma úr upptökum í Útvarpsleikhúsinu, svo nóg er að sýsla. Hún er með heimasíðuna yrurari.com og þar er verslun. „Ég tek við pöntunum á peysum. Ein þeirra sem hafa keypt margar er Erykah Badu tónlistarkona. Fólk sem fer á svið hefur oft gaman af því að skarta einhverju alveg sérstöku og viðskiptavinir mínir eru margir úr þeim hópi. Lagerinn í búðinni er orðinn lítill.“

Ýr segist nota margar aðferðir í sinni vinnu. „Stundum lita ég flíkur, sauma út í þær en mest prjóna ég og bý til bætur, þær geta bæði verið flatar og þrívíðar, þannig að þær stingist út úr peysunum. Ég gaf út uppskriftabók og tungur urðu mjög vinsælar, fólk þarf ekki að vera reyndir prjónarar til að spreyta sig á þeim. Ég er búin að sjá alls konar útgáfur af gömlum peysum sem aðrir eru búnir að lífga upp á og gera spennandi. Mitt áhugamál hefur því smitað út frá sér,“ lýsir hún og segist vera að gera tilraunir með nálaþæfingu, þá sé hægt að þæfa niður göt og líka búa til ullarskúlptúra.

Óhefðbundnar viðgerðir

Notaðar peysur hefur Ýr keypt í Spúútnik og Extraloppunni, að eigin sögn. „En mest er frá Rauða krossinum, þar fæ ég að velja úr peysum sem eru of sjúskaðar til endursölu svo ég geti lengt líftíma þeirra. Nú er ég með töluvert magn og það yrði ævistarf hjá mér ef ég ætlaði að laga þær allar. Þess vegna býð ég þeim sem koma í Hönnunarsafnið að taka að sér peysur. Ef fólk treystir sér til að koma þeim í gagnið og nota þær áfram gerir það samning við mig um það. Í grunninn er það samningur sem maður ætti alltaf að gera þegar maður kaupir sér flík,“ segir Ýr og vonast eftir gestum í Hönnunarsafnið í dag og næstu vikur. „Unglingar hafa til dæmis gaman af því að gera flíkur persónulegar og aðlaga þær sínum stíl. Það geta allir nýtt sér svona óhefðbundnar fataviðgerðir.“

Þess má geta að frítt er í dag á sýninguna 100% ull í Hönnunarsafninu.