„Valþjófsstaður á sér langa sögu sem kirkjustaður og höfuðból. Á henni er stiklað í máli og myndum innan haganlegs ramma. Við köllum þetta sögusvið,“ segir Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra, um reit sem vígður verður við Valþjófsstaðarkirkju í Fljótsdal klukkan 14 á morgun.

Hjörleifur er upphafsmaður að framkvæmdinni og kveðst hafa fengið hugmyndina fyrir fjórum árum, síðan hafi verkefninu þokað áfram með góðra manna aðstoð. Hann nefnir sérstaklega Guðmund Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóra Kirkjugarðssjóðs, í því sambandi.

Umgjörðin er traust fyrir þá sögu sem hér er sett á svið.

Staðurinn færður til

Hjörleifur er fæddur á Hallormsstað. Hann þekkir því Valþjófsstað frá æskuárum og er mikið búinn að lesa síðan og skrifa.

„Það eru víða til heimildir um Valþjófsstað í söguritum og skjölum sóknarnefnda,“ segir hann. „Staðurinn var áður uppi undir fjallinu. Þar var byggð kirkja í kringum 1200 sem stóð í um 550 ár, til 1743. Fyrir henni var Valþjófsstaðarhurðin sem varðveitt er á Þjóðminjasafninu. Staðurinn er þekktastur fyrir hana. Hún lenti í Kaupmannahöfn um tíma en var gefin til baka til Íslands. Innri hurð kirkjunnar sem nú er á Valþjófsstað er endurgerð af henni, prýðilega skorin út af Halldóri Sigurðssyni á Miðhúsum.“

Prestsbústaðurinn upp við fjallið var merkilegur skáli, hár og mikið útskorinn, að sögn Hjörleifs.

„Andspænis honum stóð gamla stafkirkjan og tvær á eftir henni, þar til 1888 að reist var ný kirkja niðri á grundunum, um 200 metra frá þeirri gömlu. Það sem mér hefur þótt undarlegast er að kirkjugarðurinn var lagður niður og sléttaður. Hans sér engin merki nú, heldur er þar eins og hver annar bithagi. Ég lét fara með jarðsjá yfir garðinn til að átta mig á stærð hans,“ lýsir Hjörleifur.

„Út úr þeim rannsóknum þróaðist sú hugsun að gera yfirlit yfir söguna fyrir gesti sem heimsækja Valþjófsstað.“

Skírður eftir presti frá 18. öld

Hjörleifur trúir mér fyrir því í lokin að hann heiti eftir presti sem sat staðinn í meira en hálfa öld.

„Sá hét Hjörleifur Þórðarson og dó 1786, en var prestur í 69 ár, fyrst í sinni fæðingarsveit, Álftafirði, síðan á Hallormsstað og svo Valþjófsstað. Hann var seigur, ágætt skáld og eftir hann liggja rímur og sálmar. Svo þýddi hann alla passíusálmana á latínu, sem var alþjóðamál þess tíma, og fékk þá útgefna í Kaupmannahöfn 1785, ári áður en hann dó. Eintak er varðveitt á Landsbókasafni og ég á bókina ljósritaða.“