Þriðji þáttur hlaðvarpsins Það sem skiptir máli fór í loftið í gær. Þar fjallar Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttarlögmaður, hugmyndir sínar um dómsvaldið á Íslandi.

„Fyrir okkur sem eru komnir aðeins á aldur þá er þetta ansi nýstárlegur tjáningarmáti,“ segir Jón Steinar.

„Unga fólkið hefur meira verið að nota þetta. Einhver stakk því að mér að það yrði sniðugt ef ég setti fram hugmyndir mínar um lögfræðina, dómstólana og hugsanlega misnotkun dómsvaldsins í svona þætti.“

Í fyrstu tveimur þáttunum fer Jón yfir hlutverk dómstólanna og af hverju það er eins og það er.

„Dómstólarnir þurfa eins og allar aðrar stofnanir sem fara með þjóðfélagslegt vald að sæta gagnrýni, ekki síst vegna þess að þetta eru æviskipaðir dómarar sem þurfa aldrei að endurnýja umboð sitt.“

„Handhafar hinna þátta ríkisvaldsins, löggjafar- og framkvæmdavalds, eru kosnir eða fá umboð sitt frá almenningi. Það gera dómstólar ekki eins og við vitum,“ útskýrir Jón Steinar.

„Í því felst að þeir taka engar huglægar ákvarðanir og dæma bara eftir lögum. Þess vegna er þýðingarmikið fyrir alla sem starfa á vettvangi dómstólanna að gera sér grein fyrir þeim takmörkunum sem felast í valdinu.“

Í þriðja þættinum víkur Jón Steinar að bók sinni frá 1987, Deilt á dómarana, og veltir því fyrir sér hvort hún hafi valdið einhverjum breytingum í réttarkerfinu. Þættirnir verða alls sex og segir Jón Steinar að í næstu þáttum muni hann taka fyrir einstök dæmi og ræða hvað sé hægt að gera til úrbóta.

Dómstóla skortir gagnrýni

Jón Steinar er sammála því að hann sé í einstakri stöðu til að gagnrýna dómsvaldið á Íslandi.

„Það er áhyggjuefni hvað starfandi lögfræðingar í dag, hvort sem þeir eru lögmenn eða fræðimenn, eru hikandi við að fjalla af hreinskilni og á gagnrýninn hátt um starfsemi dómstólanna,“ segir hann.

„Dómstólarnir þurfa eins og allar aðrar stofnanir sem fara með þjóðfélagslegt vald að sæta gagnrýni, ekki síst vegna þess að þetta eru æviskipaðir dómarar sem þurfa aldrei að endurnýja umboð sitt.“

Þá bendir Jón Steinar á að þegar einstaklingar eru beittir ríkisvaldi séu dómstólar það vald sem gengur þeim næst.

„Fólk getur verið svipt frelsi sínu eða börnum og ákvarðanir teknar um fjármál þeirra. Þetta gengur miklu nær mönnum en lagasetningar á Alþingi eða ákvarðanir í Stjórnarráðinu,“ segir hann.

„Þess vegna kalla ég þættina Það sem skiptir máli. Það skiptir fólkið í landinu nefnilega máli að starfsemi þessara stofnana sé í lagi.

Milliliðalaus miðill

Aðspurður um skoðun sína á hlaðvörpum sem miðli segist Jón Steinar heillaður.

„Ég verð að segja að mér finnst þetta alveg frábært, að hafa tækifæri til að geta tjáð skoðanir sínar svona sjálfur á alnetinu,“ segir hann.

„Þetta er tjáningarmáti sem stendur alveg undir sér sjálfur. Sá sem vill tala, talar, og sá sem vill hlusta, hlustar. Það þarf engan millilið, svo ég segi bara húrra!“