„Þetta er dagskrá sem er hugsuð fyrir eldri borgara hér á safninu,“ segir Ragnheiður Vignisdóttir, fræðslu- og útgáfustjóri hjá Listasafni Íslands. Í dag er boðið upp á gæðastund fyrir eldri borgara á safninu. Stundin felur í sér leiðsögn um sýninguna Skartgripir Dieters Roth.
„Svo er eitt það besta við þessa viðburði það að Brauð og Co. bjóða upp á nýbakað og volgt bakkelsi að leiðsögn lokinni og svo er boðið upp á kaffi,“ segir Ragnheiður.
Gæðastundir hafa verið haldnar í Listasafni Íslands undanfarin fjögur ár svo nú er að hefjast fimmta gæðastundaárið. Ragnheiður segir stundirnar alltaf tengjast sýningu sem í gangi sé á safninu. „Við gerum þetta einu sinni í mánuði og þetta eru leiðsagnir eða sérfræðingar sem tala um ákveðin verk eða starfssvið, alltaf mjög áhugavert og skemmtilegt,“ segir hún.
Dieter Roth fæddist árið 1930 en lést árið 1998. Hann fæddist í Sviss en var búsettur á Íslandi um árabil. Hann var myndlistarmaður og þekktur fyrir hin ýmsu listform en það sem færri vita að sögn Ragnheiðar er að hann vakti einnig athygli fyrir nýstárlega skartgripasmíði sem hann hóf að fást við hér á Íslandi seint á sjötta áratug síðustu aldar.
„Þetta er hlið á honum sem hefur verið lítið sýnd en hann var rosalega flinkur skartgripahönnuður,“ segir Ragnheiður. „Skartgripirnir sem hann hannaði voru margir unnir í samstarfi við þáverandi eiginkonu hans, Sigríði Björnsdóttur, sem var listmeðferðarfræðingur og þekkt sem slíkur,“ bætir hún við.
Gæðastundin hefst klukkan tvö í dag og segist Ragnheiður afar spennt. „Þetta er góður tími fyrir margt fólk á besta aldri. Margir koma hingað með vinum sínum eða hjón saman og þetta fólk er vinir og velunnarar safnsins. Sumir koma aftur og aftur og sumir eru að koma í fyrsta sinn,“ segir Ragnheiður.
Þá hvetur hún alla, unga sem aldna, til að gera sér ferð á sýninguna. „Þetta er rosalega flott sýning en henni fer að ljúka svo við hvetjum sem flesta til að koma, þetta er síðasta vikan,“ segir Ragnheiður.