Sænski rithöfundurinn Selma Lagerlöf fæddist 20. nóvember 1858 í Vermalandi. Það var árið 1909 sem hún varð fyrst allra kvenna til að hljóta Nóbelsverðlaunin. Um leið varð hún fyrsti Svíinn til að vinna þessi eftirsóttu verðlaun. Þau fékk hún fyrir bók sína Nilli Hólmgeirsson og ævitýraför hans um Svíþjóð. Bókin kom út í Svíþjóð í tveimur bindum, á árunum 1906 og 1907.

Selmu sagðist síðar svo frá að bókinni hafi í fyrstu verið ætlað að vera dulin landafræðikennsla þar sem aðalpersónan ferðast um land sitt á gæsabaki. En bókinni var vel tekið og hróður hennar barst fljótt út fyrir heimaland höfundar og var þýdd á fjölda tungumála og varð víða lesin.

Hugur Selmu stefndi fljótt að ritstörfum. Hún starfaði sem kennari en reyndi fyrir sér jafnframt með ritstörfum. Eftir að hafa sigrað í sagnasamkeppni tók hún til við að skrifa skáldsögu í fullri lengd. Það var Gösta Berlings saga sem kom út 1891. Henni var mátulega tekið í fyrstu en telst nú til sígildra sænskra bókmennta.

Meðal annarra þekktra verka Selmu er Jerúsalem og Föðurást: saga frá Vermalandi svo einhverra af fjölmörgum bóka hennar sé getið.

Í tímaritinu Æskunni frá árinu 1966 segir um Selmu: „En afreksverk hennar lifa og munu ekki falla í gleymsku meðan mannkindin kann að meta góðan skáldskap. Hún var einn af þessum ódauðlegu sagnameisturum, sem lifa í bókum sínum, þótt þeir deyi.“

Selma Lagerlöf lést þennan dag, 16. mars árið 1940, 81 árs að aldri.