Í rauninni ættu loftslagsmálin að vera aðaláhugamál allra. Mér finnst of lítið um það að list endurspegli mestu hættu okkar tíma sem er hlýnun jarðar. Pönkhljómsveitir sungu um kjarnorkuvána og ég skil ekki hvers vegna svona fáir syngja um stærstu umhverfiskatastrófu sögunnar,“ segir Kristján Hrannar Pálsson organisti. Hann var meðal þeirra ellefu sem tóku við styrkjum úr Tónmenntasjóði kirkjunnar um helgina við hátíðlega athöfn í Háteigskirkju. Styrkinn fær hann fyrir orgelverk sem hann er að semja um loftslagsbreytingarnar. Hvað skyldi einkenna slíka tónsmíð?

„Verkið byggist á 20 stuttum köflum sem mynda eina heild. Sá fyrsti heitir 0,0 gráða, og táknar eðlilegt hitastig, annar +0,1 gráða, þriðji +0,2 gráður og þannig fram eftir götunum þar til komið er í +2,0 gráður. Það byrjar mjög rólega en með hverjum kafla eykst hraðinn og ég ætla að enda það í brjálæði og látum. Lokakaflinn táknar nefnilega hitann sem talinn er marka skilin þar sem ekki verður aftur snúið.“

Spurður hvort hann hafi fengið háa fjárhæð úr Tónmenntasjóðnum svarar Kristján Hrannar: „Þetta er ekki fjármögnun heldur styrkur til að ég geti einbeitt mér dálítið að þessu verkefni og þurfi kannski ekki að spila út um hvippinn og hvappinn til að eiga fyrir salti í grautinn á meðan.“ Þó verkið sé enn í vinnslu hefur hann verið að spila kafla og kafla, nú síðast á Akureyri um helgina í Akureyrarkirkju. „Ég hef líka spilað hluta úr því í Langholtskirkju og einnig í Hallgrímskirkju, á stóra Klais-orgelið.“

Kristján Hrannar, sem starfar sem organisti hjá Óháða söfnuðinum og stofnaði Óháða kórinn í mars á seinasta ári, hefur gegnum tíðina komið víða við í poppi, þjóðlaga- og raftónlist sem söngvari og laga- og textahöfundur. Hann hefur áður gert tvær plötur með píanótónlist um loftslagsþemað, Arctic Take One og Sea Take One sem báðar eru aðgengilegar á Spotify. Þar spann hann lögin beint á plöturnar og hvert þeirra heitir eftir borgum og bæjum á norðurslóðum sem hafa orðið fyrir barðinu á loftslagsbreytingum. Hann hélt líka erindi á Arctic Circle 2016 um tónlist og loftslagsbreytingar og um það hvernig listamenn geta haft áhrif á hið pólitíska [email protected]