Fyrst á dagskránni er að fara á fund sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra er með á Hótel Vatnajökli. Hann er að kynna drög að frumvarpi um nýja þjóðgarðastofnun. Reyndar byrjaði ég á að fá tölvuaðganginn í lag. En ég er nú bara búin að vera í embættinu í kortér!“ segir Matthildur Ásmundardóttir þegar hún er spurð hvert hennar fyrsta verk hafi verið sem bæjarstjóri Hornafjarðar. Hún tók við í gærmorgun og máttarvöldin buðu upp á heiðríkju. „Hér er yndislegt veður og útsýni til allra átta,“ svo notuð séu hennar orð.

Matthildur er ýmsum hnútum kunnug í Hornafirði, hún ólst þar upp og hefur verið þar framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands síðustu sex ár. Segir þó brýnustu verkefni sín nú vera að setja sig vel inn í bæjarmálin. „En ég er aðeins búin að hita upp. Hitta bæjarráð og nefndarmenn og vera á einum bæjarstjórnarfundi.“

Eftir náms- og starfsár í Reykjavík kveðst Matthildur hafa flutt austur árið 2003, til að sinna þar sjúkraþjálfun, ásamt manni sínum, Hjálmari Jens Sigurðssyni. „Við ætluðum bara að vera í tvö ár. Ég átti hér vissulega rætur en það var dálítið erfitt ástand í bæjarfélaginu þá og straumurinn lá suður. Það breyttist fljótt og eftir hrun varð landsbyggðarsveifla – hún er reyndar núna líka, kannski vegna húsnæðisverðsins í Reykjavík. Hér er verð mun lægra og svo er miklu rólegra í svona umhverfi, maður er örskotsstund að hjóla í vinnuna og krakkarnir í skólann.“

Matthildur er móðir þriggja barna, sjö, tólf og fimmtán ára. „Elsti sonurinn kemst á framhaldsskólaaldur eftir þennan vetur en var nýfæddur þegar við fluttum,“ segir hún. Að síðustu er hún spurð hver taki við hennar gamla starfi hjá heilbrigðisstofnuninni. „Það er ekki vitað, auglýsingaferlið er að klárast,“ segir hún en upplýsir að nýr hjúkrunarstjóri hafi verið ráðinn í stað Ásgerðar Gylfadóttur. „Það er kona frá Reykjavík. Bróðir hennar keypti hér gamalt hús sem hefur verið rekið kaffihús í. Þetta er fólk sem hefur búið í 101 en vill flytja út á land og komast í nálægð jökla og náttúrufegurðar.“