Árið 1903 komu Norðmaðurinn Rasmus Hallseth og Svíinn David Fernander til Íslands til að sýna kvikmyndir. Listgreinin var á þeim tíma enn kornung og urðu Reykvíkingar því augljóslega spenntir þegar auglýst var að þeir gætu séð „stórkostlegustu, fegurstu og fróðlegustu lifandi myndir sem nokkru sinni hafa verið búnar til“ í Iðnó. Myndefnið var meðal annars fengið úr dýragarði London, borgarastríðinu í Suður-Afríku og frá krýningu Játvarðar konungs sjöunda.
Þessi sýning markaði upphaf bíómenningar í höfuðstaðnum en fyrsta kvikmyndahúsið sem starfrækt var í Reykjavík var Reykjavíkur Biograftheater sem sett var upp í Aðalstræti 8, sem síðar var þekkt sem Fjalakötturinn. Það var eina kvikmyndahús Reykjavíkur fram til 1912 þegar Nýja bíó var sett upp í sal Hótel Íslands.