Kristín Ólafsdóttir (1889-1971) var fyrst kvenna til að útskrifast frá Háskóla Íslands er hún lauk prófi í læknisfræði 15. febrúar árið 1917.

Kristín var fjórða í röð sex barna hjónanna Ingibjargar Pálsdóttur og séra Ólafs Ólafssonar á Lundi í Lundarreykjadal. Hún varð stúdent utan skóla vorið 1911, og var þriðja konan á Íslandi til að ljúka stúdentsprófi.

Í læknadeildinni kynntist Kristín Vilmundi Jónssyni, síðar landlækni, þau gengu í hjónaband árið 1916 og störfuðu á Ísafirði eftir útskrift en héldu svo til framhaldsnáms í Danmörku og Noregi. Kristín var kandídat á fæðingardeild Rigshospitalet í Kaupmannahöfn og lyflækningadeild Ulleval-sjúkrahússins í Ósló. Kristín og Vilmundur sneru aftur til Ísafjarðar síðla árs 1919. Þar sinnti hún fyrst og fremst lyflækningum. Hún kenndi líka heilsufræði við unglingaskólann á Ísafirði og Húsmæðraskólann Ósk. Hjónin festu kaup á íbúðarhúsi við Silfurgötu 7 á Ísafirði og var þar læknastofa þeirra til húsa þar til Vilmundur var skipaður landlæknir árið 1931. Þá fluttist fjölskyldan búferlum til Reykjavíkur og þar opnaði Kristín eigin læknastofu.

Kristín var einn stofnenda Félags háskólakvenna 1928, sat í barnaverndarnefnd 1946–1952 og skólanefnd Húsmæðraskólans í Reykjavík 1941–1946. Hún var afkastamikill þýðandi og skrifaði bækur og greinar um heilsufræði, til dæmis bækurnar Heilsufræði handa húsmæðrum og Manneldisfræði handa húsmæðraskólum.

Heimild: kvennasogusafn.is