„Þetta er fyrsta sirkuslistahátíðin sem haldin er af íslenskum aðilum,“ segir Eyrún Ævarsdóttir, formaður stjórnar sirkuslistafélagsins Hringleiks, sem stendur fyrir hátíðinni. „Við verðum með fimm ólíkar sýningar fyrir fjölbreyttan áhorfendahóp, námskeið, opnar sirkussmiðjur og hitt og þetta.“

Hátíðin fer fram í nýuppbyggða svæðinu við Elliðaárstöð, þar sem fjölskylduvænu viðburðirnir fara fram, og í Hjólaskautahöllinni á Sævarhöfða.

Þá verður sýningin Arcade Delight eftir danska sirkushópinn Dynamo Workspace í Kolaportinu en sú er ætluð fullorðnum.

„Þau eru að koma með upplifunar­­-sirkus-rúlluskauta-kabarett-partí-sýningu,“ segir Eyrún og hlær en á sýningunni býðst áhorfendum að fara sjálfir í rúlluskauta, fá lánaðan 80‘s fatnað og jafnvel að láta klippa á sig möllet.

Eyrún Ævarsdóttir, formaður stjórnar sirkuslistafélagsins Hringleiks
Fréttablaðið/Aðsend

Á blússandi farti

Félagasamtökin Hringleikur voru stofnuð árið 2018 og telja nú um þrjátíu meðlimi sem starfa við sirkuslistir á Íslandi. Sirkusstarfið er fjölbreytt og er boðið upp á sýningar, námskeið og unglinga- og barnastarfið Æskusirkus.

„Það er allt á blússandi farti á verkefnunum hjá okkur,“ segir Eyrún, sem bætir við að Covid hafi auðvitað sett strik í reikninginn hjá mörgum. „Við náðum samt alveg að halda sýningar í gegnum faraldurinn svo það er gaman hvað það hefur í rauninni gengið vel. Í Covid vorum við til dæmis með sýninguna Allra veðra von, sem flakkaði um allt land og hlaut meira að segja Grímuverðlaun.“

Fyrstu skrefin

Í dag þarf blessunarlega enginn að strjúka að heiman til að ganga í sirkus, en hvernig er best að bera sig að ef maður hefur áhuga á að blanda sér í senuna?

„Ef viðkomandi er undir átján ára þá er hægt að ganga í Æskusirkusinn þar sem krakkar geta mætt,“ segir Eyrún. „Fyrir fullorðna erum við með opnar æfingar í nýtilkomnu sirkusæfingahúsinu okkar, sem er í sjálfu sér magnað skref þar sem við höfum verið aðeins á hrakhólum undanfarin ár. Svo erum við með ýmis námskeið sem er hægt að finna á heimasíðunni okkar.“

Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend