Bónus opnaði fyrstu verslun sína þennan mánaðardag árið 1989. Hann bar upp á laugardag. Verslunin var í 400 fermetra húsnæði að Skútuvogi – og er enn. Bak við hana stóðu feðgarnir Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson. Í DV var haft eftir Jóhannesi við það tækifæri: „Verslunin nefnist Bónus og dregur nafn sitt af þeim afslætti sem veittur verður af öllum vörum.“

Hvort sem um afslætti var að ræða eða ekki fundu neytendur vel fyrir þeim verðmun sem var á vörum í Bónus samanborið við aðrar verslanir sem þá voru við lýði, því stimplaði Bónus sig strax inn sem lágvöruverðsverslun og fékk góðar viðtökur hjá landsmönnum. Á heimasíðu verslunarinnar kemur fram að salan hafi strax orðið þrefalt meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir.