Vanessa Williams komst í sögubækur þennan dag fyrir 35 árum þegar hún var fyrst blökkukvenna krýnd Ungfrú Ameríka. Í fyrsta skipti í sögu keppninnar varð sigurvegarinn skotmark hótana og hatursbréfa kynþáttahatara.

Tíu mánuðum eftir krýninguna var Vanessu skýrt frá nektarmyndum sem væru að fara í birtingu. Myndirnar taldi hún vera í glatkistunni enda hefði hún aldrei skrifað undir birtingarleyfi.

Tilurð myndanna má rekja til ársins 1982 þegar Vanessa vann sem förðunarfræðingur fyrir Tom Chiapel, ljósmyndara í New York. Hann fékk Vanessu til að sitja fyrir undir því yfirskini að prófa ætti nýja tækni við skuggamyndatöku með tveimur fyrirsætum, en Vanessu myndaði hann með nakinni konu í mismunandi uppstillingum.

Myndirnar draga upp milda mynd af ástalífi samkynhneigðra, sem var afar umdeilt á þessum tíma. Hugh Hefner, útgefanda Playboy, voru boðnar myndirnar til birtingar en hann afþakkaði. Seinna sagði hann Playboy ekki hafa viljað valda nýkrýndri Ungfrú Ameríku vandræðum, því myndirnar hefðu greinilega verið teknar án samþykkis til birtingar. Nokkru síðar tilkynnti Bob Guccione, útgefandi Penthouse, að hann hygðist birta myndirnar í septemberheftinu 1984.

Eftir fjölmiðlafár jókst þrýstingur á Vanessu að afsala sér krúnunni, sem hún og gerði á blaðamannafundi 23. júlí 1984. Í september sama ár hóf hún málsókn gegn Chiapel og Guccione, en lét málið niður falla með orðunum: „Sætasta hefndin er velgengni.“