Bílddælingurinn Jón Kr. Ólafsson er staddur hér syðra þessa dagana, „í hinni konunglegu borg“, eins og hann orðar það. Hann lætur bara vel af sér. „Veðrið er himneskt. Það er líklega verið að bæta okkur upp þetta sumar sem aldrei kom,“ segir hann. Kveðst búinn að reka tónlistarsafn í átján ár á Bíldudal og aldrei hafa kynnst öðru eins aðsóknarleysi. „Það kom ekki sála í safnið. Íslendingar fóru náttúrlega ekkert vestur á firði í svona veðurfari, þeir héldu sig ýmist fyrir austan í sumar eða bara í Hollywood.“

Þegar Jón er spurður hvað sé annars títt, kemur fréttin: „Ég er að fara að gefa út, ja, líklega lokadiskinn minn – einsöngslög sem tekin voru upp þegar ég var þrítugur. Ég söng lögin inn í Ríkisútvarpinu við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar píanóleikara. Við æfðum í tvo mánuði. Þetta var alvöru og ekkert verið að kasta til höndum.“

Hann segir það hafa verið Svavari Gests að þakka að þessar upptökur útvarpsins fóru ekki á haugana, eftir að búið var að nota þær í þætti hjá Jóni Gunnlaugssyni. „Næst þegar ég kom til Reykjavíkur hitti ég Svavar. Hann var þá með sitt útgáfufyrirtæki og ég plötusölumaður hjá honum. Ég kom til hans á lagerinn og það fyrsta sem hann sagði var: „Ég er nú búinn að hlusta á þessar frábæru upptökur með þér, góði, og ég ætla bara að segja það strax að þetta verðum við að gefa út á plötu – núna.“ Svo gerði hann það, gaf efnið út á vínylplötu 1983. Það var stór plata sem hét Ljúfþýtt lag.“

Jón segir dægurlög hafa verið í bland við hin klassísku á vínylplötunni en nú verði bara klassík og ekkert annað. Hann hafi orðið að láta endurvinna upptökurnar, svo þurfi að senda þær til útlanda. Diskurinn eigi að heita Jón Kr. Ólafsson í 60 ár, enda séu 60 ár frá því hann steig fyrst á svið. En hvenær er von á diskinum? „Hann gæti komið út eftir miðjan nóvember. Ég er ekkert að stressa mig of mikið. Verð kannski á ferðinni hér aftur í byrjun nóvember og þá væri gott ef þetta yrði komið. Það er nú ekki það þægilegasta í heimi að stjórnast í svona hlutum gegnum síma vestan af Bíldudal. Ég er nefnilega forngripur sem er ekki með tölvu.“

Safnið hans Jóns heitir Melódíur minninganna og á liðnu vori segir hann kunningja sinn, Ingimar Oddsson, hafa gefið út plötu með sama nafni, honum til heiðurs. „Ingimar tileinkaði mér diskinn sinn á þeim forsendum að ég væri búinn að gera svo mikið fyrir íslenska tónlist. Hann gat látið það vera.“

Heyrðu, nú þarf ég að senda til þín ljósmyndara, segi ég. „Já, en ég þarf að fara fyrst niður í STEF og svo aðeins að laga mig til svo ég verði ekki alveg eins og rifinn upp úr svelli.“