Lífið er oftast runa af tilviljunum – og það þekkja þrjár vinkonur á besta aldri sem kynntust fyrir tilviljun í útivist fyrir nokkrum árum og eru nú svo að segja óaðskiljanlegir sálufélagar.

Stöllurnar Hrönn Marinósdóttir, Karen Þórólfsdóttir og Sóley Elíasdóttir reka nú saman lítið fyrirtæki sem nefnist sælar.‌is og er það helgað hreyfingu og útivist. Og þessa dagana eru þær að skipuleggja aðventugöngu á Úlfarsfell í næstu viku.

„Markmiðið er að hvetja aðra til að hreyfa sig því það eykur gleðina svo mikið, og kynnast fleirum með sömu áhugamál,“ segir Hrönn í samtali við blaðið og minnir á hvað náttúran á auðvelt með að tengja fólk saman.

Hrönn Marinósdóttir, Karen Þórólfsdóttir og Sóley Elíasdóttir hafa tengst traustum vinaböndum í gegnum útivistina og reka nú saman fyrirtæki.
Mynd/aðsend

Gott að spjalla saman

„Það er svo gott að spjalla í svona göngutúrum og gaman að kynnast fólki með sömu áhugamál,“ segir Hrönn enn fremur – og rifjar upp þegar vinkonurnar hittust fyrst. „Það er svo merkilegt hvað náttúran nær að laða fram það besta í fari hvers og eins, frískandi útiveran færir mann út fyrir þægindarammann – og það er því að þakka við náðum saman fyrir þessa algjöru tilviljun,“ segir Hrönn.

Eftirleikurinn hefur verið ævintýri líkastur, oftast á fjöllum, og Hrönn segist tala fyrir hönd þeirra þriggja þegar hún hvetur kynsystur sínar – og karla auðvitað líka – til að drífa sig út og eignast jafnvel nýja vini til frambúðar.

„Í okkar tilviki smullum við saman þegar við skráðum okkur í Landvætta­prógramm hjá Ferðafélagi Íslands fyrir nokkrum árum og líf okkar breyttist mikið í kjölfarið. Við fórum í kjölfarið að æfa reglulega og skrá okkur á alls kyns íþróttamót og fara langt út fyrir þægindarammann og líka með alls kyns útivistarferðum, meðal annars með hjónunum Brynhildi Ólafsdóttur og Róberti Marshall.“

„Við erum búnar að standa fyrir göngum og hjólaferðum við og við frá því í fyrra, og bjóðum öllum að taka þátt með okkur" segir Hrönn.
Mynd/aðsend

Sjálfstraustið eykst

Hún er ekki frá því að sjálfstraustið hafi aukist mikið við að uppgötva leynda hæfileika á íþróttasviðinu fyrir utan hvað það er gott að halda sér í líkamlega góðu formi, en andleg heilsa fylgi með í kaupbæti. „Reyndar finnst okkur við stundum vera eins og unglingar en ekki konur á virðulegum aldri þegar við erum að sprikla.“

Og svo er komið að næsta kúrs. Þann 10. desember næstkomandi ætla Sælar að standa fyrir aðventugöngu um Úlfarsfellið.

„Við erum búnar að standa fyrir göngum og hjólaferðum við og við frá því í fyrra, og bjóðum öllum að taka þátt með okkur. Málið er að maður verður svo glaður af því að hreyfa sig, við viljum því fá sem flesta með okkur. Móttóið okkar er aldrei hætta að hreyfa sig,“ segir Hrönn.