Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi yfirlæknir, stjórnarformaður og forstjóri sjúkrahúss SÁÁ, fagnaði 75 ára afmæli á dögunum. Fréttablaðið ræddi við hann í tilefni þessara tímamóta.

„Já, maður lendir í þessu eins og fleiri. En það er nú sennilega betra að lenda í þessu en ekki,“ segir Þórarinn Tyrfingsson, þegar blaðamaður óskar honum til hamingju með stórafmælið. „Því miður eru margir sem ekki ná þessum áfanga.“

Þórarinn, sem lét af störfum hjá SÁÁ 2017, segir að hann hafi sinnt einhverjum verkefnum fyrir samtökin fram til 2020 en síðan þá sitji hann í helgum steini. Þetta eru viðbrigði fyrir mann sem helgaði SÁÁ starfsævi sína frá því hann varð yfirlæknir þar 1979. 1984 varð hann forstjóri sjúkrahúss SÁÁ og gegndi þeirri stöðu til 2017. Þá var Þórarinn stjórnarformaður SÁÁ 1988-2010.

„Það er ofsalega mikið að gera við að gera ekki neitt,“ segir Þórarinn sem segist samt ekki geta kvartað. Hann eigi gott bókasafn og góða tónlist. Þá eru áhugamálin meðal annars golf, þannig að hreyfingin er ekki vanrækt.

„Ég nýt mín vel hér heima við í Reykjavík og svo á ég sumarbústað nálægt Hvítá í Grímsnesinu og þar finnst mér gott að vera.“

Þórarinn segir áhuga sinn á áfengis- og vímuefnavörnum óbreyttan þó að hann sé hættur störfum. „Ég er alveg jafn skoðanaríkur um þau efni og áður,“ segir Þórarinn. „Áhuginn og eldmóðurinn er alveg óbreyttur og ég fylgist vel með þeim málum.“

Þórarinn Tyrfingsson, fyrrum yfirlæknir SÁA, hefur áhyggjur af því að rödd samtakanna heyrist lítið og hafi lítil áhrif. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA

Þórarinn segir SÁÁ hafa í raun ráðið miklu um stefnuna hér á landi í áfengis- og vímuefnavörnum lengst af á meðan hann kom við sögu, fram yfir 2010, en svo sé ekki lengur.

„SÁÁ er ekki lengur sama aflið í mótun áfengis- og vímuvarna Íslands og áður var. Samtökin hefur sett mikið niður og það er mikil synd,“ segir Þórarinn. „Rödd SÁÁ heyrist orðið lítið og virðist hafa lítil áhrif.“

Þórarinn segir þessi mál einhver þau mikilvægustu og erfiðustu bæði á Íslandi og annars staðar og mikilvægt sé að fólk haldi vöku sinni. Enginn sjúkdómur dragi eins marga til ótímabærs dauða og áfengis- og vímuefnafíkn. „Engar skyndilausnir eða tískusveiflur duga. Þrotlaus vinna og ódrepandi áhugi er lykillinn að árangri.“

Á léttari nótum segist Þórarinn horfa björtum augum til sumarsins sem verði örugglega betra við höfuðborgarbúa en síðasta sumar.