Mér virðast spennandi tímar fram undan og hef góða tilfinningu fyrir þessu nýja starfi,“ segir Helga Björg Kjerúlf sem hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hinnar alþjóðlegu myndlistarhátíðar Sequences real time art festival, sem fyrirhuguð er í október í haust. Það verður í tíunda skipti sem hátíðin er haldin en hún er á dagskrá annað hvert ár í Reykjavík. Ávallt hefur verið lagt upp með að þar ríki andi frumkvæðis og áræðni. Sýningarstaðir verða Kling og Bang, Nýlistasafnið, Núllið, Bíó París og óhefðbundnir staðir.

Helga Björg kveðst hlakka sérstaklega til að vinna með því fólki sem kemur til með að taka þátt. Hún hafi verið í fæðingarorlofi þegar síðasta hátíð fór fram en reynt að hafa eyru og augu opin. Þrjú börn eru á heimilinu, eins, sjö og fjórtán ára og seint verður sagt um Helgu Björgu að hún sé verkefnalaus, því auk þessa nýja embættis er hún að vinna hjá KÍM, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar sem verkefnastjóri íslenska skálans í Feneyjum. Svo er hún í tvenns konar meistaranámi við Háskóla Íslands, Markaðsfræði og Nýsköpun og er einmitt í tölvutíma í því síðarnefnda þegar ég hringi og trufla. Býst hún við að verða búin með námið þegar að Sequences kemur? „Ætli ég verði ekki með aðra ritgerðina á meðan!“ segir hún glettnislega. „Þetta er allt í bútum, tarnir og hlé á milli. En ef ég hef of lítið að gera þá geri ég ekki neitt!“

Meðal þess sem Helga Björg hefur á ferilskránni er arkitektanám við Listaháskólann sem hún lauk BA gráðu í 2012. Strax á eftir stofnaði hún Neptún Magazine, tímarit um myndlist og hönnun, ásamt fleirum, það vakti athygli og fór í helstu bókaverslanir erlendis en Helga Björg kveðst hlédræg og lítið fyrir að standa á torgum. Usee Studio, hönnunarstúdíó, er eitt af hennar afkvæmum, svo og Stúdíó Kvika - og ýmislegt er í pípunum.