Frakkanum Patrick Gervasoni var vísað úr landi þennan mánaðardag árið 1980 eftir miklar deilur. Hann var eftirlýstur fyrir að neita að gegna herskyldu í heimalandinu en flúði fyrst til Danmerkur og sótti skriflega um hæli á Íslandi í apríl 1980, kom svo með Smyrli til landsins í september til að þrýsta á um afgreiðslu málsins. Þar framvísaði hann hollensku atvinnuskírteini undir nafninu Dominique Licien van Hoove og kvaðst hafa glatað vegabréfinu á leiðinni.

Málið velktist í íslenska dómskerfinu og fjölmiðlar og almenningur blandaði sér í það. Haldinn var fjölmennur útifundur á Lækjartorgi í október þar sem siðferðis- og mannúðarrök voru áberandi.

Dómsmálaráðherrann, Friðjón Þórðarson, taldi að gæti þyrfti öryggis landsins, deila mætti um hvort um pólitískan flóttamann væri að ræða en útilokað væri að hafa landið opið fyrir hverjum sem væri.