Tengsl mín við Skógræktarfélag Reykjavíkur hafa varað lengi. Ég hef stundað útivist í Heiðmörk og fór oft þangað sem barn. Þá voru höfuðstöðvar félagsins niðri í Fossvogsdal þar sem ég ólst upp. Nú eru þær fluttar upp að Elliðavatnsbæ,“ segir Auður Kjartansdóttir, sem er nýr framkvæmdastjóri félagsins. Hún hefur verkstjórn og verkefnastjórn í skógrækt á ferilskránni en síðustu fimmtán ár hefur hún starfað hjá Veðurstofunni sem sérfræðingur í ofanflóðum. „Það má segja að þungi starfa minna færist nú frá vetri til sumars en bæði tengjast náttúrunni,“ segir hún.

Hallarbyltingar í félaginu eru ekki á stefnuskránni hjá Auði. „Ég mun fyrst og fremst halda áfram með það góða starf sem félagið hefur staðið fyrir í áratugi. Í sumar voru 70 ár frá því það hóf starfsemi í Heiðmörk við hátíðlega athöfn. Það var 25. júní 1950 sem hundruð manna komu þar saman og gróðursetning hófst. Þá var Hákon Bjarnason skógræktarstjóri og í ávarpi óskaði hann þess að Reykvíkingar sæktu í Heiðmörkina frið í hjarta og hvíld á sál og líkama um alla framtíð. Einnig að landsmenn lærðu að fara mjúkum höndum um móðurmoldina svo hún gæti borið þeim hávaxin tré sem skýldu og hlífðu niðjum þeirra í stormum framtíðarinnar. Þetta er einmitt það sem okkar kynslóð er að upplifa í skógunum.“

Hvorki vill Auður lofa né lasta lúpínuna. „Lúpínan er hápólitísk planta. Margir eru henni mótfallnir en henni fylgir sveppur sem bindur kolefni og moldin verður frjósamari fyrir vikið. Skógræktarfélag Reykjavíkur plantar skógi í lúpínubreiður enda leggur það fyrst og fremst stund á skógrækt og styður við hana hjá einstaklingum, félögum og fyrirtækjum. Það hefur umsjón með stórum útivistarsvæðum eins og Esjuhlíðum og Heiðmörk.

Auður kveðst hafa reynslu af fararstjórn hópa fólks úti í náttúrunni. Hún segir marga viðburði á hverju ári sem Skógræktarfélag Reykjavíkur standi fyrir, nefnir sem dæmi skógarleika og Heiðmerkurhlaup. „Svo er nýlega búið að skrifa undir samning um loftslagsskóga í Úlfarsárdal og Esjuhlíðum sem er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Þar er verið að minnka kolefnisspor Reykvíkinga og sporna gegn hnattrænni hlýnun. Grænn trefill skóga veitir skjól, dregur úr mengun og bætir heilsu borgaranna.“