Fríkirkjan í Reykjavík stendur frammi fyrir tímamótum á sunnudaginn 5. september, þegar dr. Sigurvin Lárus Jónsson verður settur prestur við kirkjuna. Það verður í fyrsta skipti í sögu Fríkirkjunnar þar sem prestar hennar verða fleiri en einn í fullu starfi, en kirkjan hefur vaxið mikið síðan Sr. Hjörtur Magni Jóhannsson tók við fyrir 23 árum síðan.

„Við vorum tæplega fimm þúsund þegar ég tók við en í dag telur söfnuðurinn um 11 þúsund, svo við hljótum að vera að gera eitthvað rétt,“ segir Hjörtur. „Þessi ráðning á að fela í sér aukna þjónustu, sem veitir ekki af, því það er mikið leitað til okkar bæði í gleði og sorg.“

Hjörtur telur að vinsældir Fríkirkjunnar megi meðal annars rekja til þeirrar víðu sýnar sem hún leitast við að temja sér. „Við leggjum áherslu á víðsýni, umburðarlyndi og frjálslyndi, og leggjum mikla áherslu á að mannréttindi séu ofar trúarlegum kreddum,“ segir hann. „Kristur sjálfur setti manngildið ofar trúarstofnunum og trúarboðum lögmálshyggju, hvað þá bókstafshyggju.“

Þar að auki segir Hjörtur að tilraunir í messuhaldi laði einnig fólk að. „Við bjóðum til að mynda upp á djasstónlist í messunum okkar, sem hefur vakið mikla lukku. Tónlistin er einn af okkar styrkleikum.“

Sigurvin og Hjörtur eru sammála um mikilvægi víðsýni í starfi.
Mynd/Eggert Gunnarsson

Frelsi frá veraldlegu valdi

Þá segir Hjörtur að merk saga Fríkirkjunnar hafi ekki fengið að njóta sín sem skyldi. „Við höfum starfað á þremur öldum og það vita það kannski ekki allir, en Fríkirkjan var hluti af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga,“ segir hann. „Að við fengum sjálfstæði, ekki bara trúarlegt, heldur frelsi undan öllu veraldlegu auðvaldi. Trúfélög eiga ekki að vera háð ríkisvaldi, hvorki dönsku né íslensku, lýðræði og jafnræði á að ríkja.“

Aðspurður um hvernig það hafi verið að sinna jafnstórum söfnuði einn, segir Hjörtur: „Ef við myndum miða út frá þjóðkirkjunni eða eitthvað slíkt, ættu líklega að vera hérna allavega þrjú stöðugildi, en við greiðum sjálf laun okkar presta, ólíkt því sem er í söfnuðum þjóðkirkjunnar “ segir hann. „Álagið er búið að vera mikið í gegnum árin, svo það er kærkomið að fá jafnhæfan og færan mann og Sigurvin er. Hann er einn af okkar færustu guðfræðingum, bæði hámenntaður og snillingur í mannlegum samskiptum.“

Trúverðugt trúfélag

Sigurvin hefur sjálfur starfað við Fríkirkjuna í Hafnarfirði undanfarin tvö ár, auk þess sem hann er með kennslustöðu í Þýskalandi, þar sem hann sinnir kennslu í nýja-testamentisfræðum. Hann tekur undir með Hirti um hve mikilvæg víðsýni Fríkirkjunnar sé velgengni hennar.

„Fríkirkjan er trúverðugt trúfélag. Þetta er lítil kirkja með látlausa umgjörð en skýra sýn,“ segir hann. „Í mínum huga er engin tilviljun að það höfði til fólks að hún sé látlaus og gagnsæ. Síðan er hugsjón kirkjunnar ótrúlega nútímaleg, eins og ég mun fara yfir í prédikun minni á sunnudaginn. Kirkjan hefur verið áberandi í umræðunni um trúfrelsi, lýðræði, kynjajafnrétti og hugmyndinni um jafnræði stétta.“

Sigurvin segir að ofangreind stef rími mjög vel við upphaf 21. aldarinnar. „Fólk hefur verið að kalla eftir trúverðugri kirkju og Fríkirkjan hefur mætt þeirri þörf á undanförnum árum,“ segir hann. „Það hefur birst með afgerandi hætti, til dæmis í afstöðunni í garð mannréttindabaráttu hinsegin fólks. Það er engin spurning í mínum huga að hluti af aðdráttarafli Fríkirkjunnar sé afgerandi afstaða Fríkirkjunnar með mannréttindum og kærleikanum.“

Einn af þeim hlutum sem Sigurvin mun fjalla um í predikun sinni á sunnudag er aukin fjölmenning sem hluti af raunveruleika okkar. „Aukin fjölmenning kallar á aukið menningarlæsi og aukið umburðarlyndi,“ segir hann. „Fríkirkjan hefur sýnt í verki að hún er tilbúin að vinna í samstarfi með öðrum trúfélögum og trúarbrögðum og umburðarlyndi gagnvart öðrum lífsskoðunum eins og húmanisma. Eitt mest afgerandi verkefni 21. aldarinnar er að snúa ekki til baka í það samfélag að allir hugsi eins, heldur einblína frekar á það sem sameinar okkur en það sem sundrar okkur.“