Friðrik Jens Guðmundsson fæddist í Reykjavík 3. nóvember 1998. Hann lést 2. apríl 2019. Friðrik var yngstur þriggja systkina. Foreldrar Friðriks eru Guðmundur Friðriksson, f. 2 febrúar 1961, og Helga Óskarsdóttir, f. 8. desember 1962. Systur Friðriks eru Sigrún Áslaug Guðmundsdóttir, f. 1980, og Rannveig Guðmundsdóttir, f. 1986. Sambýlismaður Sigrúnar er Pétur Reynir Jóhannesson og börn þeirra eru Emilía Ósk, f. 2008, og Helgi Snær, f. 2011. Sambýlismaður Rannveigar er Kári Auðun Þorsteinsson og dætur þeirra eru Salka Sif, f. 2014, og Helena Björk, f. 2017.

Friðrik Jens ólst upp í Grafarvogi og kláraði grunnskólann í Víkurskóla og fór síðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti þar sem hann kláraði eina önn í rafvirkjun.

Útför Friðriks Jens verður gerð frá Bústaðakirkju föstudaginn 12. apríl kl. 13.

Elsku fallegi og góði drengurinn minn, nú ertu farinn frá okkur og sú hugsun er óhugsandi. Þú ert okkur svo kær og minning okkar um góðan, hjartahlýjan dreng mun alltaf fylgja þér. Þú varst svo skemmtilegur strákur og við gerðum svo margt skemmtilegt saman. Allar okkar ferðir með þér til útlanda eða það sem þér datt í hug að gera þá stundina, leitandi um allt land að rétta staðnum fyrir mótókrossbraut eða fylgja þér á golfmót. Þú hefðir getað orðið atvinnumaður í hvaða íþrótt sem þú stundaðir, hæfileikarnir voru alls staðar. Þú áttir mörg áhugamál og sem barn prufaðir þú allar íþróttir, íshokkí, parkour, fótbolta, snjóbretti, mótókross, hjólaíþróttir og golf. Alltaf varstu djúpt sokkinn í hverja og eina íþrótt þegar það skeið stóð yfir og þú last þér til um allt sem hægt var að læra og varst heillaður þangað til eitthvað annað kom sem greip hugann.

Þú varst mjög listhneigður og hafðir gaman af því að teikna, mála og skera út rúnir, allt lék í höndunum á þér. Þú varst svo skýr og klár strákur og djúpt þenkjandi um það sem greip huga þinn hvort sem það voru heimspekilegar vangaveltur eða annað sem þú last þér til um. Þrátt fyrir það áttir þú erfiða skólagöngu sem lét þér líða illa í umhverfi sem hentaði þér ekki, svo fjörugum og uppátækjasömum strák. Það var yndislegt að fá vini þína í heimsókn um daginn og heyra þeirra sýn af prakkarastrikum þínum úr skólanum. Þeir upplifðu hvað það var gaman að vera með þér, alltaf líf og fjör í kringum þig. Traustari vin og félaga er ekki hægt að hugsa sér og þú talaðir ekki illa um nokkurn en þú gast auðveldlega svarað fyrir þig og rökfastari mann hef ég ekki hitt.

Þú tjáðir svo auðveldlega ást þína til okkar foreldra og systkina og oft heyrði ég þig líka segja vinum þínum að þér þætti vænt um þá, þetta var svo einstakur eiginleiki hjá þér og það er lærdómur sem þú skildir eftir hjá okkur. Þegar þú varst í Svíþjóð sagðir þú okkur hvað þér þætti skrítið að það væru bara ekki allir sem elskuðu foreldra sína. Þú skildir það ekki. Þú merktir þig með okkur þar sem þú fékkst þér tattú á brjóstið með hjarta með MAMMA inni í og lést setja föðurnafnið þitt í rúnum á handlegginn. Þú varst stoltur af okkur og við vorum stolt af þér. Löngunin til að eiga góða framtíð var sterk þar sem þú varst alltaf tilbúinn að bæta þig og reyna enn meira en fékkst bara ekki það tækifæri. Þú varst jaxl með gullhjarta en því miður þá varstu tekinn frá okkur allt of snemma, elsku drengurinn okkar. Við elskum þig alltaf.

Mamma og pabbi

Elsku yndislegi bróðir minn, orð fá því ekki lýst hvað hjarta mitt er beyglað og brotið. Það er svo erfitt að hugsa til þess að ég fái aldrei að sjá þig né knúsa þig aftur eða segja þér hvað ég elska þig mikið. Ég man svo vel þegar ég sá þig fyrst, uppi á fæðingardeild í örmunum á mömmu og pabbi stóð við hliðina á ykkur. Þau voru svo stolt og hamingjusöm. Við systurnar svo ótrúlega montnar og glaðar að hafa fengið lítinn sætan bróður. Við erum svo heppin að hafa fengið þig inn í líf okkar, þú gafst okkur svo mikið, alltaf svo blíður. Sagðir alltaf við mig þegar við kvöddumst að þú elskaðir mig og knúsaðir börnin mín. Þú dæmdir aldrei neinn og varst alltaf svo traustur vinur. Gleymi aldrei fyndna dansinum sem þú dansaðir fyrir mig, og fallega brosinu þínu. Þú varst svo skemmtilegur. Þú leitaðir mikið til mín og ég er mjög þakklát fyrir öll samtölin okkar sem við áttum. Við vorum með svo mörg plön og ætluðum að gera svo margt saman.

Ég er svo þakklát fyrir þennan tíma sem ég fékk með þér. Ég mun gera mitt allra besta til að passa uppá fjölskylduna okkar, elsku bróðir, en þangað til við hittumst aftur, elsku Frikki minn, þá kveð ég þig. Ég elska þig og við sjáumst seinna.

Þín systir Sigrún

Elsku Friðrik, yndislegi litli bróðir minn. Ég trúi ekki að ég sé að skrifa minningargrein til þín, þetta er óraunverulegt. Ég er full af sorg en líka glöð yfir öllum góðu stundunum sem við áttum saman. Ég man hvað við vorum öll spennt og glöð þegar þú komst í heiminn, þvílík gleði. Fyrstu árin þín fékk ég að passa þig, ég var unglingur og þú litli strákurinn okkar. Þú varst yndislegur og fjörugur drengur og mjög uppátækjasamur. Það er gaman að rifja upp öll uppátækin þín og þau fá mig til að hlæja. Mér fannst þú svo fallegt barn og það var gaman að taka myndir af þér. Þegar ég fer í gegnum myndirnar ertu annaðhvort skælbrosandi, að gretta þig, eða á flugi í loftinu, sem er mjög lýsandi fyrir þig, aldrei dauð stund. Þú varst mikill dellukall, það var alltaf eitthvað í gangi, og það voru alltaf einhverjar pælingar. Þú varst listrænn, hugsaðir mikið og varst rökfastur.

Ég hefði viljað eignast svo miklu fleiri minningar með þér en við fengum möguleika á. Ég er glöð yfir því að þú hringdir í mig þegar þú varst í Svíþjóð, við áttum svo gott spjall. Ég er einnig glöð yfir því að ég skrifaði þér bréf áður en þú fórst, ég meinti hvert orð þar. Ég elska þig og sakna þín.

Rannveig