Hið íslenska þjóðvinafélag var stofnað þann 30. september 1871 og var í raun fyrsti stjórnmálaflokkur Íslands. Félagið var stofnað til styrktar Jóni Sigurðssyni og kusu stofnendur hann sem forseta félagsins svo hann gæti komið sínum málstað á framfæri.

Undir flokknum starfaði leynifélagið Atgeirinn, sem Jón stofnaði í Kaupmannahöfn 1872, og kölluðu félagsmenn þess sig Geirunga. Hlutverk þeirra var að standa vörð um Ísland og réttindi Íslendinga, meðal annars í blöðum og tímaritum. Í dag stendur félagið aðallega fyrir útgáfu tímaritsins Andvara sem fyrst kom út 1874, þar sem fjallað er um sögu þjóðarinnar og ýmis menningarmál.

Beina sjónum til framtíðar

Í tilefni þess að Þjóðvinafélagið fagnaði 150 ára afmæli sínu í fyrra, býður félagið til málþings í dag. Yfirskrift þingsins er Bjartsýnisspá fyrir árið 2071 sem verður 200 ára afmælisár félagins.

„Þetta er ekki félag sem stendur venjulega fyrir mikið af viðburðum en stjórnin ákvað í þetta sinn að halda málþing í tilefni afmælisins,“ segir Lára Magnúsardóttir hjá Þjóðvinafélaginu. „Við ákváðum að horfa í lögin um tilgang félagsins þegar það var stofnað, en það átti meðal annars að stuðla að því að efla samheldni
og stuðla að framförum landsins og þjóðarinnar í öllum greinum.“

Í stað þess að einbeita sér að einhverju sem er að gerast núna, var ákveðið að framtíðin yrði á dagskrá á málþinginu.

„Það er auðvitað enginn sérfræðingur í framtíðinni, svo þetta er ekki fræðilegt þing, en við fengum frábært fólk til að taka þátt í þessu,“ segir Lára. „Við báðum um að horft yrði til framtíðarinnar með bjartsýni. Við verðum nú sennilega fæst ofanjarðar þegar félagið fagnar 200 ára afmæli sínu, en það skiptir ekki máli því það er ekki hægt annað en að hafa áhuga á framtíðinni.“

Erindi á þinginu flytja Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra, Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, Kristrún Heimisdóttir, lektor í lögfræði á Bifröst, Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno og María Elísabet Bragadóttir rithöfundur.

Að erindunum loknum verður opnað á umræður sem stýrt verður af Oddnýju Eir Ævarsdóttur rithöfundi, Bergi Ebba, rithöfundi og fyrirlesara, og Loga Pedro Stefánssyni listamanni.