Alþjóðlegt fornsagnaþing verður sett í Reykjavík í dag. Þingið, sem er það sautjánda í röðinni, var fyrst haldið í Edinborg árið 1971 og hefur verið haldið á þriggja ára fresti frá 1973. Þetta er í þriðja sinn sem það er haldið á Íslandi. Það eru Háskóli Íslands, Snorrastofa og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem hafa veg og vanda af skipulagningunni.

„Undirbúningur hefur staðið yfir í rúmlega þrjú ár en eins og einn kollegi minn orðaði það, þá líður okkur núna eins og jólin séu að koma,“ segir Svanhildur Óskarsdóttir, formaður undirbúningsnefndar þingsins.

Að sögn Svanhildar eru þátttakendur þingsins tæplega fjögur hundruð og koma víðs vegar að úr heiminum. „Þetta er stíf dagskrá í fjóra daga og yfirleitt sjö málstofur samhliða. Svo verður ferðadagur á fimmtudaginn. Þá verða ýmsar ferðir í boði til að viðra fræðimennina.“

Þrír sérstakir hátíðarfyrirlestrar verða haldnir í stóra sal Háskólabíós og verða þeir opnir almenningi. Sá fyrsti fer fram kl. 9.30 í dag en hinir á miðvikudags- og föstudagsmorgun kl. 9.

„Þema ársins í ár er Íslendingasögur. Það hefur aldrei verið sérstakt þema áður og okkur fannst upplagt að beina kastljósinu að þeim á þessu þingi. Það örvaði okkur að á undanförnum árum hafa komið út nýjar þýðingar á Íslendingasögunum,“ segir Svanhildur.

Svanhildur segir að það sé ekki svo að rannsóknir á sviði norrænna fornbókmennta séu einhvern tímann búnar. „Viðhorf okkar breytast sem hefur áhrif á það hvernig við lesum sögurnar. Hver tími kemur með sína lykla að sögunni. Fornsögurnar eru fjölbreyttar og það er alltaf hægt að finna eitthvað nýtt.“

Aðspurð segir Svanhildur að áhuginn á norrænum fornsögum fari vaxandi alþjóðlega. Þannig segir hún að arfur fornbókmenntanna verði kveikja að nýrri sköpun í nýjum miðlum.

„Það er verið að beina athyglinni að þessum arfi. Við sjáum það meðal annars í sjónvarpsþáttum eins og Game of Thrones og svo auðvitað á sögum Tolkiens. Svo er gaman að geta þess að á þinginu verður rætt um myndasögur og fornbókmenntir. Þar verður meðal annars japanskur manga-höfundur sem hefur gert myndasöguseríu sem heitir Vínland.“

Fjallað verður um fornsögur í myndasögum á sérstökum hliðarviðburði sem haldinn verður í Norræna húsinu á fimmtudagskvöld klukkan átta.