Við vildum standa fyrir menningarátaki á tíu ára afmælinu, segir Kári Viðarsson, eigandi Frystiklefans á Rifi. Átakið snýst um að gefa öllum íbúum Snæfellsbæjar ársmiða á viðburði í húsinu. „Mér fannst þessi hugmynd viðeigandi. Það hafa alltaf verið samfélagsleg markmið bak við Frystiklefann frekar en gróðasjónarmið. Ég tel mikilvægt að fólk sem hefur ekki haft efni á að koma á sýningar fái að njóta lista og útlendingum eða öðrum sem eru nýkomnir í bæinn sé tekið opnum örmum. Langflest fyrirtæki í Snæfellsbæ og líka einstaklingar keyptu ársmiða af mér, auðvitað á lágu verði – og lögðu þannig lóð á vogarskálarnar, svo ég endaði ekki með að gefa nema um 1.000 miða úr eigin vasa.“

Kári er frá Hellissandi – „Sandari í húð og hár“, eins og hann orðar það. Hann kveðst hafa stofnað menningarhúsið Frystiklefann þegar hann útskrifaðist úr leiklistarskóla 2010 og verið þar síðan með annan fótinn – og oft báða. „Ég er sjálfstætt starfandi leikari og skemmtikraftur en rek líka þetta batterí og hef sjálfur verið hér með tólf sýningar, algerlega búnar til á staðnum, auk þess að taka við verkefnum alls staðar að úr heiminum. Það hefur verið fullt að gera. En ef Snæfellsbær og nærsveitungar hefðu ekki tekið þessari hugmynd svona vel strax í upphafi – að vera með atvinnuleikhús á Rifi – og sýnt stuðning í verki með mætingu á sýningar og tónleika þá hefði ég ekki nennt að standa í þessu. Heimafólk áttaði sig á hversu mikið gildi það hefur að vera með svona starfsemi hér.“

Inntur eftir því hvað sé á döfinni núna í Frystiklefanum svarar Kári: „Ég legg ekki í vana minn að segja frá öllu í einu en við erum með mikla dagskrá fyrir þetta ár. Næsti stóri viðburður er sýningin hans Sóla Hólm – Varist eftirhermur. Sóli er skólabróðir minn úr Menntaskólanum við Sund, það verður gaman að fá hann í heimsókn. Ég er að leika í sýningu í samstarfi við Kvennaathvarfið sem heitir Ókunnugur, hún er í gangi líka í húsinu. Svo ætlum við að hýsa heimildarmyndahátíð. Ég sækist dálítið eftir því að breyta til, upp á það að læra af þeim sem ég er að vinna með og hef kynnst mörgu listafólki, íslensku og erlendu. Þetta hefur verið frábært ferðalag í tíu ár.“