Fyrsta spurning til Magnúsar Tuma í tilefni sextugsafmælisins í dag er rándýr: Verður boðið upp á gos og hraun í afmælinu? Hann hefur örugglega heyrt hana oft áður og svarar að bragði:

„Ja, ég er nú meira fyrir hlaup!“

Við erum stödd í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, þar sem Magnús Tumi er prófessor, svo vill til að eldfjallið Askja gaus árið sem hann fæddist. Síðan hafa íslensku eldfjöllin oft rumskað honum til heiðurs kringum stórafmæli.

„Hekla var ári of snemma á ferðinni 1970 en gaus bæði 1981 og 1991, þegar ég varð tvítugur og þrítugur,“ segir hann kíminn. „Ég var 35 ára þegar Gjálp gaus 1996 og Grímsvatnagosið 2011 bar upp á daginn sem ég hélt upp á fimmtugsafmælið, 21. maí. Sumir sem boðnir voru í veisluna mættu ekki heldur fóru að gosinu en ég ákvað að bíða með það til næsta dags.“

Nú reyna Geldingadalir að gleðja vísindamanninn á sextugasta afmælisárinu, hann er ekkert gríðarlega spenntur en fylgist með gosinu á skjánum og er að undirbúa ferð þangað með nemendum.

Snemma beygðist krókurinn

„Ég fékk strax mikinn áhuga á landinu sem strákur. Átti tvo föðurbræður sem voru jarðfræðingar, Jens og Hauk Tómassyni, og fannst voða heillandi það sem þeir voru að gera,“ lýsir Magnús Tumi.

„Um fermingu byrjuðum við nokkrir félagar að ferðast með Ferðafélagi Íslands, svo gekk ég í Alpaklúbbinn sextán ára og fór að klífa tinda og var á fjöllum nánast um hverja helgi frá fimmtán ára aldri fram yfir tvítugt. Við Georg Guðni listmálari vorum systkinasynir, jafnaldrar og vinir. Hann byrjaði ungur að mála á Tungnáröræfum þegar faðir hans var að vinna við Hrauneyjar og ég var á sama svæði við mælingar í nokkur sumur vegna virkjanarannsókna. Það var ágætur skóli. Ég hafði gaman af reikningi og var með góðan eðlisfræðikennara í MS, Þorvald Ólafsson, svo ég fór í jarðeðlisfræði. Vann líka um tíma fyrir Helga Björnsson jöklafræðing og það jók áhugann á jöklum og hlaupum.“

Draumur varð að veruleika

Jöklarannsóknafélagið sem Magnús Tumi gekk í þegar hann var 17 ára og hefur verið formaður í í 23 ár, varð til þess að Grímsvötn urðu í uppáhaldi hjá honum.

„Á árunum 1986-87 kynntist ég víðáttum Vatnajökuls. Við Anna Líndal, kona mín, fórum í brúðkaupsferð á skíðum 1986 yfir þveran Vatnajökul, úr Kverkfjöllum að Þumli og niður í Skaftafell. Síðan fluttum við til London í framhaldsnám,“ lýsir hann.

Í doktorsnámi kveðst hann hafa fengið samþykki leiðbeinanda síns fyrir að gera lokaverkefnið um Grímsvötn og út frá því hafi gosið í Vatnajökli 1938 sem olli stóru hlaupi með jakaburði í Skeiðará líka vakið rannsóknarþörf.

„Ég vonaðist til að fá að upplifa eitthvað svipað og sá draumur raungerðist þegar Gjálp gaus 1996. Það gos hafði mikil áhrif á minn feril.“

Heppnin hefur verið með Magnúsi Tuma því síðan hann kom heim frá námi hafa flest eldgos á Íslandi orðið í jöklum.

„Ég hef verið kringum þau gos og unnið við hættumat vegna náttúruvár, sérstaklega á Suðurlandi, þar sem Kötlugos vofir alltaf yfir. Það skilaði miklum árangri þegar Eyjafjallajökull gaus. Hef tekið þátt í mörgum fundum með heimafólki og það er lærdómsríkt og gefandi. Hjarta mitt slær úti á landi við rannsóknir. Ég hef unnið með góðu fólki og ef ég á að nefna einhvern einn vísindamann þá er Guðrún Larsen okkar besti gjóskulagafræðingur. Starf í raunvísindum er mikið hópastarf þar sem fólk með mismunandi styrkleika bætir hvert annað upp og treystir hvert öðru, líkt og í sögunni um Velvakanda og bræður hans.“

Fínir krakkar

Í lokin er forvitnast aðeins um fjölskylduna.

„Við Anna eigum tvö uppkomin börn, Rögnvald, eðlisfræðing sem vinnur á Ísor, fyrirtæki í orkurannsóknum, og Kötlu Sigríði sem er lærð í kvikmyndafræði og stundar nú framhaldsnám í viðskiptafræði,“ upplýsir Magnús Tumi og bætir við brosandi:

„Ég er ánægður með krakkana okkar.“