Fyrir fimm árum síðan fór snekkjan Amelia Rose í sína jómfrúarferð. Fréttablaðið greindi frá ferðinni og kallaði skipið þá reyndar skútu – sem er allt önnur tegund af bát.

Þar kom fram að ferðin hæfist með diskóballi og siglt yrði í um fjörutíu mínútur og svo yrði tveggja tíma kokteill um borð og léttar veitingar. Þegar snekkjan sigldi svo inn höfnina yrði smá flugeldasýning. Í greininni fyrir fimm árum kemur fram að snekkjan sé í raun heimsfrægur bátur en Hollywood-myndin In the blink of an eye, sem kom út árið 2009 og skartar Eric Roberts í aðalhlutverki, var tekin upp í bátnum og gerist stór hluti myndarinnar á henni.

Svanur Sveinsson, framkvæmdastjóri Sea Trip Reykjavík, segir að koma snekkjunnar sé upphafið að velgengni Sea Tours. Nú eigi fyrirtækið fimm báta til að sigla um höfin með ferðamenn. „Ef ég man rétt var sjálfur Herbert Guðmundsson í fararbroddi í þessari jómfrúarferð ásamt fleiri góðum.

Ferðaáætlun Amelia Rose hefur breyst í gegnum árin. Nú erum við meira að sigla með fólk í hvalaskoðunar- og norðurljósaferðir. Það er líka hægt að leigja hana í einkapartí sem margir hafa gert á undanförnum árum. Helgi Björns hélt til dæmis sextugsafmæli sitt um borð og skemmti sér alveg konunglega.“

Amelia Rose var fyrst keypt frá Mexíkó í gegnum fjölda fjárfesta en var seld öðrum skömmu síðar. Sá hópur missti bátinn á uppboð og þar kom Svanur aftur til sögunnar. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. „Það eru búnar að vera margar veislurnar um borð og fjörið og stuðið. Það er yfirleitt mikið og skemmtilegt stuð á gamlársdag þegar við siglum út og horfum á flugeldana,“ segir hann.

Svanur hefur verið lengi í ferðaþjónustunni við Reykjavíkurhöfn. Hann segir að þeir hafi ekki farið í eldgosaferð enn sem komið er en ef gosið stækkar og bjarminn verði fallegur að kveldi sé aldrei að vita nema stjarna Ameliu Rose fái að skína í grennd við Grindavík. „Það hefur alveg komið til tals að fara. Það sést bara smá reykur núna en ef það myndi breytast þá er ekki spurning að fara. Tíminn er góður til þess, það er farið að rökkva og það er ábyggilega geggjað að sigla með fram strandlengjunni.

Það er aldrei að vita nema við förum svona ferðir. Það er ekkert hægt að útiloka það. Ef einhver vill fara þá stendur ekkert á okkur,“ segir Svanur.