Nú fá gestir að kynna sér eitthvað af því sem í boði verður í jólabókaflóðinu,“ segir Harpa Rún Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur um það sem fram fer sunnudaginn 6. september í Bókakaffinu á Selfossi. Dagskráin er liður í Menningarsumrinu þar og ber yfirskriftina: Áður en flóðið kemur.

Harpa Rún segir þá kumpána Bjarna Harðarson og Guðmund Brynjólfsson munu fara á sínum hefðbundnu kostum og kynna síðustu bækur þríleikja sinna. „Bjarni lokar gullhreppahringnum með Síðustu dögum Skálholts en Guðmundur heldur sig nær ströndinni í Þögla barninu. Svo fer Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir norður yfir heiðar í bókinni Aldrei nema kona sem hefur notið vinsælda og Vilborg Davíðsdóttir efnir heit sitt og les úr bókinni sem hún gaf okkur brot úr í fyrra. Bókin er væntanleg í lok október og gestir Bókakaffis fá að skyggnast á ný inn í heim skáldsins.“

Sumarupplestrar á Bókakaffinu byrjuðu í fyrrasumar og Harpa Rún rifjar upp að Guðrún Eva las þar úr bók sem hún hafi ætlað að gefa út í ár, 2020. „Það var dýrðarstund og Guðrún Eva fékk svo góðar viðtökur á upplestrinum að hún ákvað að flýta útgáfunni og dreif bókina út fyrir síðustu jól. Svo talaði ég við Vilborgu Davíðs en hún neitaði í byrjun og sagðist aldrei lesa úr verkum í vinnslu en ég þráaðist við og talaði hana til. Varð því mjög glöð þegar ég sá að hún nær að gefa bókina út núna og ætlar að lesa á sunnudaginn fyrir okkur. Hún er frábær upplesari og hefur tónlist undir sem skapar stemningu. – Talandi um tónlist. Gunnlaugur Bjarnason barítónsöngvari ætlar líka að flytja ljóðasöngva á dagskránni og við píanóið verður Hafsteinn Rúnar Jónsson.“

Þá vitum við það. Harpa Rún segir sama fyrirkomulag verða og á fyrri viðburðum Menningarsumarsins, lesið tvisvar sama daginn, klukkan 14 og 15, en nú verði einungis tólf miðar í boði á hvorn upplestur, vegna hertra sóttvarnareglna.

Annars kveðst Harpa Rún mikið til hætt að starfa í Bókakaffinu. „Ég sé um svona viðburði og leysi af þegar með þarf. Að öðru leyti vinn ég heima sem verktaki í próförkum og yfirlestri,“ segir hún. Kveðst líka vera að skrifa sjálf en þó ekki eiga bók í flóðinu í ár. Hún stendur líka í húsbyggingu í Hólum. „Húsið er reyndar smíðað á Selfossi og kemur hingað fokhelt fljótlega. Við erum búin að steypa grunn og rotþróin er komin niður!“ segir hún glaðlega og upplýsir að nýja húsið muni standa smá spöl frá hinum tveimur. „Það er vestan við veginn, í skjólinu af litlum skógi sem þar er. Fallegur staður.“

Aftur að dagskránni á sunnudaginn. Harpa Rún tekur fram að hægt verði að fylgjast með seinni upplestrinum – klukkan 15 – í streymi á Facebook-síðu viðburðarins, Menningarsumarið í Bókakaffinu. „Það er að verða fullt á fyrri lesturinn svo það er um að gera að panta sem fyrst hjá mér í síma 868 5196 eða með pósti á netfangið. Auðvitað er mjög leiðinlegt að þurfa að vísa fólki frá menningarviðburðum en okkur er nauðugur einn kostur. Þannig að fyrstur kemur, fyrstur fær.“