Fornleifafúsum gefst í dag tækifæri á að skyggnast á bak við tjöldin á Þjóðminjasafni Íslands. Þar fer fram hádegisfyrirlestur um þá gripi sem bárust safninu á síðasta ári.

„Við ætlum að kynna nokkrar af þeim rannsóknum sem skilað var til okkar árið 2020 og fara yfir nokkra gripi þeim tengda,“ segir Ármann Guðmundsson fornleifafræðingur sem mun ásamt kollega sínum, Hrönn Konráðsdóttur, fræða gesti um starf safnsins.

„Við viljum gefa fólki smjörþefinn af því sem við erum að gera hérna dagsdaglega í móttöku gagna fornleifarannsókna.“ Á síðasta ári bárust Munasafninu um 19.853 gripir, þar af tæplega 19.700 úr fornleifarannsóknum, en í heild telur Munasafnið nú um það bil 300 þúsund gripi.

„Gripir úr fornleifarannsóknum er ört stækkandi flokkur innan Munasafns Þjóðminjasafns Íslands,“ segir Ármann. „Ef miðað er við allan safnkost Þjóðminjasafnsins þá eru ljósmyndir þó langstærsti flokkurinn. Á síðasta ári komu um 164 þúsund ljósmyndir inn á safnið.“

„Því hefur stundum verið fleygt að fornleifafræðingar skili seint og illa frá sér gögnum, en tölurnar segja allt aðra sögu.“

Meðal efnistaka í fyrirlestrinum verða gripir úr Viðeyjarrannsókninni sem fór fram á tímabilinu 1987-1995. Í fyrra afhenti Borgarsögusafn Reykjavíkur Þjóðminjasafninu um 17 þúsund jarðfundna gripi sem fundust meðal annars í kringum klaustrið sem þar stóð.

„Það eru mjög merkilegir gripir þar á meðal og erfitt að velja úr, en ég mun fjalla um skreytt glerbrot sem hefur líklega verið hluti af steindum glugga en þeir voru afar fátíðir á Íslandi á 13. til 16. öld,“ segir Ármann.

Þá verður einnig tekin fyrir tölfræði tengd afhendingu á gripum síðustu árin sem sýnir árangurinn í þeirri vinnu að koma fornleifafræðilegum gögnum í örugga varðveislu.

„Við viljum sýna svart á hvítu árangur þessa starfs sem er samvinnuspil margra aðila,“ segir Ármann. „Því hefur stundum verið fleygt að fornleifafræðingar skili seint og illa frá sér gögnum, en tölurnar segja allt aðra sögu. Svo verður að taka með í reikninginn að úrvinnsla fornleifarannsókna er bæði fjár- og tímafrek.“

Samkvæmt Ármanni er svo annasamt ár fram undan í Þjóðminjasafni Íslands hvað varðar meðhöndlun fornleifafræðilegra gagna. „Það er eilífur dans að koma afrakstri þeirra í örugga varðveislu hérna í Hafnarfirðinum,“ segir hann.

Vegna fjöldatakmarkana er nauðsynlegt að bóka sig á viðburðinn í gegnum heimasíðu Þjóðminjasafnsins. Einnig verður hægt að fylgjast með viðburðinum í beinni streymisútsendingu á YouTube-síðu safnsins.