Ég er meðal annars með myndir sem ég tók inni í lýsisgeymum á árunum 1993 til 2000. Mér finnst þeir vera spennandi innrými og stórmerkileg mannvirki, uppfundin á Íslandi og byggð úr steinsteypu,“ segir Guðmundur Ingólfsson ljósmyndari sem opnar sýningu á torginu í Neskirkju við Hagatorg á morgun.

Hann segir formin í myndunum hafa orðið til með ljósinu í tönkunum sem borist hafi inn um op ofan á þeim eða affallsrör. Spurður hvort eimt hafi eftir af lýsislykt í tönkunum svarar hann:  „Allt lýsi og öll lykt var farin en sums staðar þurfti maður stígvél til að komast um. Þarna sigldu menn um lýsið á prömmum áður fyrr, það hefur nú ekki verið geðslegt.“

Geymarnir voru  við síldarverksmiðjurnar, að sögn Guðmundar. „Þær frægustu voru á norðanverðu landinu, við Húnaf lóann, á Ströndum og við Eyjafjörðinn, sums staðar eru þær nýttar enn, svo sem á Hjalteyri. Þetta eru myndir sem ég sýndi í Noregi fyrir fjórtán árum og tek bara fram núna.“ 

Guðmundur sýnir líka nýjar myndir á torgi Neskirkju, þar er þemað allt annað og því lýsir hann svo: „Til Íslands koma þúsundir ferðamanna yfir árið eingöngu til að taka ljósmyndir, vetur sumar, vor og haust.  Margir stoppa stutt og mynda það sama, Kirkjufell, Skógafoss, norðurljós, hesta og Jökulsárlón. Ég fór um Suður- og Vesturland og reyndi að fanga eitthvað hversdagslegt sem f lestir keyra fram hjá á hverjum degi án þess að gefa gaum. Það ætla ég að sýna núna.“