Tímamót

Foreldrarnir plönuðu áttæðisafmælið hjá Gísla

Gísli Baldvin Björnsson er áttræður í dag. Hann titlar sig teiknara í símaskránni en nútíminn nefnir fag hans grafíska hönnun og þar er hann frumkvöðull og fræðari. Gísli kveður suma telja hann ofvirkan en lofar að fara að róast enda búinn að klára margt.

Gísli B. Björnsson á vinnustofu sinni, umkringdur málverkum og skissum. Fréttablaðið/GVA

Fólk þekkir hann sem Gísla B. Björnsson. Hann er staddur austur í Flóa þegar hringt er í hann klukkutíma fyrir leik Íslands og Nígeríu. Fyrsta spurning er hvort afmælishaldið fari eftir úrslitum leiksins.

Ekki stendur á svari: „Nei, það er búið að plana það fyrir lifandis löngu að ég yrði áttræður í dag, foreldrar mínir sáu til þess á sínum tíma. Ég ætla að fá um 150 gesti hingað að Hnausi II í Flóa. Við hjónin höfum átt þá jörð síðan 1976 og erum smám saman að byggja hana upp og skrýða skógi. Hér eru dóttir okkar Anna Fjóla og Ólafur Sigurðsson, sambýlismaður hennar, að byggja hótel, það eru enn um fjórar vikur þar til þau geta opnað en húsnæðið er fínt fyrir svona afmælispartí. Það á ekki að væsa um fólk hér.“

Í góðu skyggni blasir við dýrðarútsýni frá Hnausi, á vef Flóahrepps stendur að þaðan sé víðust sýn á Íslandi. „Við sjáum langt austur í Rangárvallsýslu, Vestmannaeyjar, Laugarvatnsfjöllin, Þingvallafjöllin, Hengilinn, út í Þorlákshöfn, um allt. Reyndar er Guð almáttugur að boða rigningu, ég hélt við hefðum samið um annað á sínum tíma. En ekki er öll von úti.“

Gísli er Reykvíkingur, kveðst hafa átt þar heima alla tíð fyrir utan þrjú ár sem hann var við myndlistarnám í Stuttgart í Þýskalandi. „Svo er ég hér fyrir austan öll sumur og aðeins lengra fram á veturinn eftir að ég fór að eldast. Síðan ég varð fullorðinn fór ég líka að fást dálítið við myndlist – og ég verð að monta mig því á morgun kemur út bók sem ég hef verið að vinna að og heitir Merki og form. Hún á ekki að fara á markað fyrr en í haust en er mætt í hús, 170 síður, um það sem ég hef verið að gera og mínar kenningar. Ég er í raun að skila af mér því sem ég hefði átt að vera búinn að gera fyrir löngu, í bókarformi.“

Gísli er líka með myndlistarsýningu í afmælinu, sýnir þar 17 myndir, flestar nýjar. „Sumum finnst ég vera aðeins ofvirkur en ég er búinn að lofa að fara að róast. Er bara að klára svo margt af því sem ég ætlaði að gera. Svo fer ég að ferðast meira og njóta lífsins. Ég var nú samt að reikna það áðan að ég hef komið til um 60 landa en sum langar mig að heimsækja aftur.“

Óman á suðausturströnd Arabíuskaga er eitt þeirra landa sem Gísla langar að skoða betur. „Óman er mjög sérstakt land sem við heimsóttum eitt sinn með Jóhönnu Kristjánsdóttur. Þó að þar sé einræðisherra er hann mjög sósíalískur, hagfræðingur að mennt og vinnur að uppbyggingu í þágu fólksins. Hann setur konur í hin ýmsu ráðuneyti og stofnanir og menntakerfið er öflugt. Þarna er mjög snyrtilegt og áhugi mikill fyrir náttúruvernd. Fólk kurteist og ekki ofsatrúar og þar er ein fallegasta bygging sem ég hef séð, moska sem soldáninn fékk ómanska og breska arkitekta til að vinna, alveg einstaklega flott.“gun@frettabladid.is

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tímamót

Fyrsta konan útskrifast frá Háskóla Íslands

Tímamót

Hef vonandi náð að gleðja einhverja í gegnum lífið

Tímamót

List í ljósi er okkar barn

Auglýsing

Nýjast

Árás á Downingstræti

Abdúlla verið konungur Jórdaníu í tuttugu ár

Apollo 14 lendir á Tunglinu

Stefán Jóhann Stefánsson verður forsætisráðherra

Þegar Challenger-skutlan fórst yfir Flórídaskaga

Burns kvöld á BrewDog

Auglýsing