Samkvæmt þjóðskrá er Magnús Ingvason fæddur 15. ágúst 1960. Hann stendur því á sextugu á morgun. „Það passar. Það kom að því fyrr en seinna,“ segir hann, þegar sú fullyrðing er borin undir hann. „Ég var búinn að bjóða þvílíkum hellingi af fólki en varð að fresta öllu þar til síðar. Vil ekki láta taka af mér gott partí enda hef ég haldið ansi vel upp á alla tugina.“

Magnús er skólameistari Fjölbrautaskólans í Ármúla og segir það vera frábært – ekki alltaf dans á rósum en mjög gefandi. „Hér er einstaklega skemmtilegur starfsmannahópur og andinn hefur lengi verið góður,“ útskýrir hann. Nú er hann að undirbúa þriðju haustönnina frá því hann tók við embætti. „Það verður að taka þeim aðstæðum sem uppi eru og vinna samkvæmt þeim. Höfum æfingu frá því í vor. Stöndum ágætlega að vígi líka því þetta er stór fjarnámsskóli. Mannskapurinn hér kann á það fyrirkomulag.“ Hann segir nemendur við skólann á öllum aldri. „Fólk í bóknámi er í yngri kantinum en í heilbrigðisskólanum, í nuddnámi, tanntækni og lyfjatækni eru mun eldri nemendur. Þar er fólk að koma í skólann sem hefur kannski unnið við fagið í einhver ár en er að ná sér í aukin réttindi.“

Inntur eftir uppruna kveðst Magnús borinn og barnfæddur Reykvíkingur. „Ég ólst upp í Fossvoginum meira og minna. Fór svo að heiman og þá að kenna. Það var nú bara tilviljun. Ég var tvítugur, nýbúinn með framhaldsskólann og var að spá í hvað ég ætti að gera. Frétti að það væri hægt að komast í kennslu úti á landi og setti nafnið mitt í einhvern pott í menntamálaráðuneytinu, til í að gera ýmislegt. Til allrar hamingju var hringt í mig af Skaganum og þar var ég í þrjú verulega góð ár áður en ég fór í nám til Bandaríkjanna í fjölmiðlafræði. Var á Bylgjunni og Rás 2 í einhver ár eftir heimkomuna og fór svo að kenna fjölmiðlafræði í FB, var í því í tuttugu ár og svo fimm ár aðstoðarskólameistari við sama skóla.“

Magnús hafði reyndar viðkomu á sjónum líka. „Ég fór eiginlega af hótel mömmu yfir á sjóinn, það voru talsverð viðbrigði en þroskandi að hafa migið í saltan sjó. Ég var fyrst á fiskibátnum Fram sem var gerður út frá Sandgerði á vetrarvertíð, síðan á togaranum Þorláki frá Þorlákshöfn og svo fór ég túr með Jökulfellinu í millilandasiglingu, svo þetta varð ágætur þverskurður. Sjóhraustur? Já, ég á skemmtibát með félaga mínum. Við vorum að koma honum í gang með nýrri vél, eigum eftir að sigla honum um sundin blá og kannski fiska í soðið.“

Áhugamál Magnúsar eru fleiri – og margvísleg eins og hann lýsir sjálfur. „Ég var í oldboys-fótbolta og er í golfi núna. Hef líka gaman af tónlist, spila á gítar með hljómsveit hér í skólanum sem heitir Úff! og var líka í hljómsveit í FB. Svo er ég með jakkafatablæti og á átján mismunandi litskrúðug föt, bæði einlit og með alls konar fígúrum, myndasögum og fleiru. Fyrstu skærlitu jakkafötin keypti ég á Flórída, laxableik. Svo hefur þetta undið upp á sig. Nemendur hafa mjög gaman af þessu. Það þýðir ekki að taka sjálfan sig alltof alvarlega, það er lykilatriði í þessu lífi að hafa svolítið gaman.“