Þættir af sérkennilegu fólki er ný bók frá Háskólaútgáfunni sem kom út skömmu fyrir jól. Bókin er sú 28. í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar sem stofnuð var árið 1997 þar sem persónulegar heimildir á borð við dagbækur, bréfasöfn og aðrar tegundir sjálfsbókmennta eru í brennidepli.
„Mest af efninu kemur frá fólki sem er kannski ekki mjög þekkt, enda er áherslan á alþýðumenninguna,“ segir Sigurður Gylfi Magnússon, einn af sex höfundum og annar ritstjóri bókarinnar. „Frá árinu 2012 höfum við verið að einbeita okkur að fátækt og hvernig hún hefur birst okkur í gegnum aldirnar.“
Í Þáttum af sérkennilegu fólki er fjallað um fólk sem var á jaðri samfélagsins frá ýmsum hliðum. Þar má meðal annars finna ítarlegar skrár sem unnar eru upp úr Alþingisbókum og annálum þar sem eru frásagnir af fólki sem batt bagga sína öðrum hnútum en samtímamennirnir – oft mjög sláandi mannlýsingar af þeim sem höfðu komist í kast við yfirvöldin af einhverjum ástæðum.

Sigurður Gylfi segir að 19. öldin sé merkileg fyrir það hve margir alþýðumenn skráðu hugsanir sínar og hugmyndir í dagbækur og sendu sendibréf sem veittu mikla innsýn í líf þessa fólks. „Sýnisbókaröðin snýst aðallega um þetta – að lyfta þessum hópi upp úr rykfylltum geymslum Landsbókasafnsins og Þjóðskjalasafnsins og gefa lesendum kost á að kynnast þessu magnaða efni.“
Ofbeldi og fátækt
„Sérkennilegt fólk varð eftirsóknarvert efni í hinum svonefnda þjóðlega fróðleik, nokkuð sem margir Íslendingar elskuðu að kynna sér,“ segir Sigurður Gylfi og vísar í umfjöllun Marínar Árnadóttur sem greinir þessar frásagnir af sérkennilegu fólki sem birtust á 20. öld í blöðum og bókum út frá hugtökunum ofbeldi og einelti. „Oft var þetta fólk sem átti við geðræn vandamál eða fötlun að stríða og samfélagið hæddist að sérkennum þeirra, oft á mjög andstyggilegan hátt.“
Fátækt hrakti marga út á jaðar samfélagsins.
„Samtímaumræðan í dag fjallar um fátækt eins og fyrirbærið sé eitthvað sem íslenskt samfélag hafi bara uppgötvað fyrir nokkrum misserum,“ segir Sigurður Gylfi og bendir á að lengi vel hafi verið gert ráð fyrir því að tíu prósent þjóðarinnar væru utanveltu. „Ein elsta stofnun landsins eru hrepparnir og þeirra hlutverk var einmitt að útdeila styrkjum til fátækra.“

Sigurður Gylfi segir að bókin hafi vakið talsverða athygli áhugasamra lesenda enda talar efni hennar inn í samtímann. „Það eru stöðugar fréttir af því að gistiskýlin séu full af fólki sem er einhvern veginn utangátta. Vissulega búum við í breyttu samfélagi frá því sem áður var en eitt er víst að fátæktin er ennþá til staðar og hefur alltaf, því miður, verið hluti af samfélaginu,“ segir hann.
Sýnisbækurnar opna á vissan hátt nýja gátt inn í liðna tíð og draga fram kjör fólks sem oft var lítils virt og haft að háði og spotti. Í bókinni er velt upp kjörum fátækasta hluta vinnufólksins, fjallað um fyrirbærið frík og fríksjó í erlendu ljósi og það borið saman við fólk á jaðrinum hér á landi. Þá er fjallað um ofbeldi og einelti samfélagsins á þessum hópi og tekin ákveðin dæmi um þá sem í því lentu og loks er fjallað um áhuga Íslendinga á ýmsum kynjafyrirbærum sem sagt er frá í gömlum heimildum.
Höfundarnir allir, þau Atli Þór Kristinsson, Anna Heiða Baldursdóttir, Marín Árnadóttir, Daníel Guðmundur Daníelsson, Sólveig Ólafsdóttir og Sigurður Gylfi, eru sagnfræðingar og vinna að rannsóknum á íslensku samfélagi fyrri alda.
