Það er nýjung að gefa fólki kost á að byrja í fullu háskólanámi á miðri önn en hér er hægt að hefja grunn- eða meistaranám í gegnum Námsglugga, eins og við köllum þetta nýja námstilboð,“ segir Guðjón Ragnar Jónasson, forstöðumaður símenntunar á Bifröst. Hann segir ástæðuna fyrir þessu framtaki skólans vera ástandið í þjóðfélaginu vegna heimsfaraldursins. „Það er atvinnuleysi meðal ýmissa stétta og þeirra sem starfa sjálfstætt. Við viljum gefa áhugasömum tækifæri til að nýta tímann í eitthvað uppbyggilegt. Haustönnin skiptist jafnan í tvær lotur hjá okkur og sú síðari hefst 19. október. Þá getur fólk byrjað.“

Hvernig skyldu svo undirtektir við Námsglugganum hafa verið til þessa? „Þær eru góðar. Víða hafa aðstæður fólks breyst og það fagnar þessu tækifæri,“ svarar Guðjón Ragnar. „Fólk úr viðskiptalífinu, menningar- og listalífinu er farið að sækja um og áhuginn á námi sem sem tengist viðskiptadeild og félagsvísinda- og lagadeild er mjög svipaður. Stjórnendur hér leggja mikla áherslu á að koma til móts við þarfir sem flestra og opna skólann. Svo er það þannig að nú má hefja nám á atvinnuleysisbótum eftir sex mánaða atvinnuleysi. Það er búið að rýmka reglurnar. Fólk má líka vera í hlutanámi á atvinnuleysisbótum. Það eru ýmsir möguleikar.“

Guðjón Ragnar segir Háskólann á Bifröst byggja mest á fjarnámi. „Öll okkar símenntun og allur okkar kraftur fer í fjarnámið, enda er mikil eftirspurn eftir því. Það hentar vel á þessum tímum því nemandinn getur sinnt því heiman frá sér. Við erum alltaf að efla fjarnámið tæknilega séð. En við leggjum líka áherslu á að ef fólk vill stunda sitt nám á staðnum og taka þátt í samfélaginu hér á Bifröst þá eru íbúðir og raðhús hér sem það getur leigt og það eru góðir skólar á staðnum.“

Guðjón Ragnar hóf störf sem forstöðumaður símenntunar og háskólagáttar á Bifröst á fyrri hluta þessa árs og kveðst kunna afar vel við sig. „Sveitin hefur alltaf átt sinn sess í sálu minni,“ segir hann. „Ég kom hingað fyrst til að lesa upp úr bókinni Kindasögur og heillaðist af staðnum. Þess vegna sótti ég um.“

Ertu kannski með rollur í kofa þarna einhvers staðar í hrauninu? spyr ég í gríni. „Ja, ég vonast til að eignast kindur í haust og er að vinna í því að stofna fjáreigendafélag Bifrastar. Svo eru Kindasögur II að koma út.“