Tímamót

Fólk hefur val um hvort það les textana eða ekki

Gítarleikarinn Mikael Máni Ásmundsson kemur fram á fyrstu tónleikum haustsins í tónleikaröðinni Velkomin heim. Þeir verða í Björtuloftum í Hörpu annað kvöld. Þeir nefnast Textar gegnum tónlist og þar verða lög eftir Bob Dylan á dagskránni. Sígildir sunnudagar.

„Þegar ég þekki textana við lög þá hafa þeir áhrif á mig þegar ég hlusta á hljóðfæraútgáfu af þeim. Þetta langar mig að endurskapa hjá fólkinu á tónleikunum,“ segir Mikael Máni.

Mig langar til að fólk geti stjórnað því hvernig það upplifir tónlistina sem ég spila,“ segir Mikael Máni Ásmundsson gítarleikari sem ætlar að flytja lög eftir Bob Dylan á sólógítar í Björtulofum á morgun, sunnudag. „Systir mín, Lilja María, handskrifaði textana við lögin og fólk hefur val um það á tónleikunum hvort það les þá eða ekki meðan ég spila.“

Mikael Máni er staddur í Stokkhólmi þegar ég hringi í hann. Þar á hann kærustu í MA-námi í söng sem heitir Marína Ósk Þórólfsdóttir. Saman gerðu þau plötu í fyrra sem nefnist Beint heim og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins í flokknum djass og blús.

„Við Marína kynntumst úti í Hollandi,“ segir Mikael Máni, sem lauk fjögurra ára BA-námi í gítarleik í júní í sumar við Conservatorium van Amsterdam. Kom síðan heim og tók upp plötu með eigin efni. „Það er tríóplata og þar spila Skúli Sverrisson og Magnús Trygvason Elíassen með mér,“ lýsir hann.

Þú semur sem sagt líka?

„Já, ég sem mikið, það er eitt af því sem gerir tónlist náttúrulega fyrir mér. Öll lögin á plötunni minni eru byggð á karaktereinkennum eða tímabilum í lífi Bobby Fischer,“ segir hann og kveðst þó aldrei ákveða fyrirfram um hvað hann ætli að semja. „Fyrsta lagið varð til á hálftíma og ég áttaði mig á því eftir á að það var um Fischer. Um það leyti var ég að lesa ævisögu hans og hún snerti mig mikið, enda vildi ég verða skákmaður þegar ég var um átta ára aldurinn, var mikið að tefla og spá í stærðfræði þá.“

Hann byrjaði líka ungur í tónlist. „Mamma setti mig í tónlistarskóla fimm ára,“ segir hann og upplýsir að móðir hans sé Guðrún Bjarnadóttir bókari og faðir hans Ásmundur Jónsson, kenndur við Smekkleysu.

Eftir nám í Tónskóla Sigursveins lá leið Mikaels Mána í FÍH þar sem meistararnir Óskar Guðjónsson, Hilmar Jensson og Sigurður Flosason höfðu sín áhrif. „Það var heilmikil breyting,“ segir hann. „Ég tók líka þátt í samspili með jafnöldrum mínum sem ég er enn í miklum samskiptum við. Þeir hafa mikinn áhuga á djassi.“

Tónleikarnir í Björtuloftum hefjast klukkan 20 annað kvöld og aðgangur er ókeypis.gun@frettabladid.is

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tímamót

Sveitungar fjöl­menntu á há­tíð norð­lensks matar

Tímamót

Ungar athafnakonur ætla að fjölmenna í Hörpu

Tímamót

Meiri afslöppun að spila lag en að sitja í tölvunni

Auglýsing

Nýjast

Tug­milljónir í bætur við Arnar­ker og í Reykja­dal

Söng, söng, meiri söng

Kvennalistinn var stofnaður

Mannskæðasta árásin í sögu Spánar

Form sem fáir gefa gaum

Laxa­bakki þjóðar­ger­semi

Auglýsing