„Þriðjungur þjóðarinnar er að vinna störf sem þarf að beita röddinni við, algerlega óvarinn. Þetta tæki, röddin, hefur ekki verið tryggt svo fólk ber sjálft kostnað og skaða ef röddin klikkar, fyrir utan þá greiðsluþátttöku sem Sjúkratryggingar Íslands leggja fram. 

Fólk hefur bara oft tekið því þegjandi, í orðsins fyllstu merkingu, ef röddin fer og veit ekki hvað það á að gera. Þess vegna tel ég að fræðsla um röddina þurfi að vera fyrirbyggjandi, númer eitt, tvö og þrjú. Þetta er forvarnar- og lýðheilsumál,“ segir Valdís Ingibjörg Jónsdóttir, talmeina- og raddfræðingur. Hún er höfundur nýrrar bókar, Talandinn – Er hann í lagi?

Valdís segir söngvara líkast til þá einu sem verulega þjálfun hljóti í beitingu raddarinnar. En nefnir kennara, stjórnmálamenn, presta og starfsfólk ljósvakamiðla sem dæmi um stéttir sem einnig byggi afkomu sína á því að rödd þeirra berist til annarra. Því verði beiting raddar að vera námsgrein í skólum, sérstaklega kennaraháskólum. „Fólk getur ekki boðið fram röddina sína ef hún nær ekki að bera skýrt fram öll talhljóð, það segir sig sjálft. Til dæmis í leikskólum þar sem hávaðinn er það mikill að börn eiga erfitt með að heyra sér til gagns og eru þó á máltökuskeiði.“

Til að vernda raddir kennara telur Valdís líka brýnt að skapa þeim boðlegar aðstæður. „Það er vitað að kennarar geta rústað röddinni í kennslustofu með alltof mörgum börnum, alltof miklum erli og alltof lítilli agastjórnun. 

Hugsum um Písarannsóknirnar. Hvað vitum við hvað börnin hafa heyrt sér til gagns í skólunum? Ef rödd kennarans er ekki í lagi fer fræðslan ekki eðlilega fram en hann getur lifað í sjálfsblekkingu því hann heyrir svo vel til sjálfs sín,“ segir hún og telur alltof lítið um að magnarakerfi séu notuð. „Það er ekki einkamál eins eða neins að leigja út röddina sína. Fólk mundi aldrei vilja leigja bíl sem væri ekki í lagi.“

Valdís telur möguleika á að einhverjir kunni að hafa dottið út af þingi af því kjósendur hafi ekki þolað raddir þeirra. Viðurkennir að ekki sé öllu fólki gefin óskarödd heldur sitji uppi með þá sem það fái úthlutað. 

„En það talar enginn tímunum saman án þess að skaða röddina, ef henni er ekkert sinnt. Þetta er líffræði og ég skrifaði þessa bók í von um að hún geri gagn. En þá þarf einhver að lesa hana. Þetta er enginn krimmi heldur kennslubók. Það er þetta almenna þekkingarleysi um röddina sem ég vil berjast gegn, því efni um hana hefur aldrei verið borið upp sem fræðigrein hér á landi,“ segir Valdís. „Fólk fer betur með bílinn sinn en röddina.“