Það sem mér hefur alltaf þótt heillandi við spennu­sögu­formið er þegar höfundinum tekst að færa hana nær skáld­sögunni með sterkri per­sónu­sköpun. Ég vil hafa bak­grunn í per­sónunum sem kemur ekki endi­lega glæpnum við – eða öðru því sem fjallað er um sem spennu­efni. Þetta hef ég verið að kljást við og snýst einkum um eina per­sónu í bókunum mínum, hann Kára og ör­lög hans, segir Stefán Sturla Sigur­jóns­son, rit­höfundur og leikari með meiru. Til­efnið er ný­út­komin bók hans, Flækju­rof. Hún er sú þriðja á fáum árum. Hann vinnur með stóra F-ið í titlunum, því áður komu út Fugla­skoðarinn og Fléttu­bönd.

Stefán Sturla svarar símanum í sumar­blíðu heima hjá sér í Finn­landi, en síðustu þrjú ár hefur hann dvalið hluta ársins á Höfn við upp­byggingu lista-og menningar­sviðs hjá fram­halds­skólanum þar. Hann upp­lýsir að sögu­svið Flækjurofs sé að ein­hverju leyti á Horna­firði.

„Ég tek mér skálda­leyfi og nefni enga staði beint en þeir sem þekkja til sjá fyrir sér ein­hverjar að­stæður sem þeir kannast við,“ segir hann og heldur á­fram. „Flækju­rof er ekki beint fram­hald af fyrri bókunum en viss þráður er spunninn gegnum þær allar, eins og tíðkast í þrí­leik. Í þessari nýjustu er ég að hnýta þær saman þó þær séu sjálf­stæðar. Ég er líka með þrjá staði á landinu sem ég flétta saman í þessari loka­viður­eign minni við söguna því hluti hennar gerist í Horna­firði, annar í Reykja­vík og sá þriðji við hæsta foss landsins, Glym í Hval­fjarðar­botni. Svo maður gerist svo­lítið djúpur þá eru þessir staðir ekki valdir „af því bara“, heldur hafa þeir merkingu fyrir efnið.“

Stefán Sturla kveðst gefa frá­sögninni á­kveðinn ljóð­rænan blæ. „Í ljóði er sett saman hugsun sem mótast í fáum orðum í á­kveðnum ryþma og gefur lesandanum mögu­leika á mynd­rænni upp­lifun af til­finningu, við­burði eða sýn á til­veruna. Þess vegna er ljóðið svo sterkt form og skiptir miklu máli fyrir rit­listina yfir höfuð; í Flækjurofum tek ég enn dýpra í árinni til að finna leiðina í ljóð­rænu formi frá­sagnar­listarinnar.“

Sjálfur kveðst Stefán Sturla alltaf hafa verið mikið fyrir spennu­sögur. „Þær eru auð­vitað mis­jafnar en sér­stak­lega finnst mér þær góðar ef höfundar nálgast formið út frá skáld­sögunni, en hafa spennuna eða glæpinn sem eitt­hvert „twist“ að leika sér að. Frekar en það sé öfugt, að spennan sé aðal­at­riðið en per­sónurnar litlar auka­verur sem leita lausna á því sem fjallað er um.“