Baðstaðurinn Vök Baths var opnaður almenningi um síðustu helgi. Laugarnar, sem eru fljótandi heitar náttúrulaugar, eru úti í Urriðavatni í um fimm kílómetra fjarlægð frá Egilsstöðum.

Heiður Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Vakar, segir þetta spennandi nýjung í ferðaþjónustu á Austurlandi. „Laugarnar eru fullkominn áningarstaður fyrir þá sem vilja upplifa beina snertingu við náttúruna og næra um leið líkama og sál,“ segir hún. „Um er að ræða tvær vakir sem eru fljótandi laugar úti í Urriðavatni með ósnortna náttúruna allt um kring. Þessar fljótandi laugar eru nýnæmi hér á landi en í þeim ná gestir að upplifa einstaka tengingu við náttúruna með útsýni í allar áttir.“

Ýmislegt annað er í boði á baðstaðnum að sögn Heiðar. Tvær heitar laugar eru við strönd vatnsins ásamt laugarbar. Köld úðagöng og gufubað bætast svo við aðstöðuna í haust. „Það er mikið lagt upp úr snyrtilegri og vandaðri aðstöðu fyrir gesti. Við höfum lagt mikinn metnað í uppbygginguna,“ segir Heiður.

Staðurinn er eitt fárra jarðhitasvæða á Austurlandi. „Jarðhitavatnið sem kemur úr borholum Urriðavatns er svo hreint að það hefur verið vottað hæft til drykkjar. Ekkert jarðhitavatn hér á landi hefur fengið þá vottun,“ segir Heiður. Hún segir innifalinn í aðgangsmiða gesta aðgang að tebar þar sem gestum gefst kostur á að blanda saman lífrænum jurtum af svæðinu við um 75°C gráða heitt vatn sem kemur beint af botni Urriðavatns.

Fyrstu framkvæmdir við baðstaðinn hófust í maí í fyrra. Að sögn framkvæmdastjórans hafa viðtökurnar verið ótrúlegar. Fyrstu dagarnir verið umfram væntingar og gestirnir verið einstaklega ánægðir.

Baðstaðurinn Vök er að 40 prósentum í eigu Jarðbaðanna í Mývatnssveit og heimamenn eiga 60 prósent.