„Hún var mikið undur á sínum tíma,“ segir Ólafur Þór Jóelsson, framkvæmdastjóri hjá Senu og þekktasti leikjagúru landsins, um þessi tímamót. Þau eru merkileg fyrir margar sakir, en kannski ekki síst vegna þess að flestir minnast forverans, PlayStation 2 og arftakans, PlayStation 4, með töluvert meiri hlýju.

„PlayStation 2 seldist alveg gríðarlega vel og PlayStation 3 fór svolítið hægt af stað, en stærstu vandamálin á þessum tíma voru þau hve langan tíma það tók fyrir leikjaframleiðendur að „krakka“ það hvernig ætti að forrita fyrir örgjörvann í vélinni,“ útskýrir Ólafur Þór.

Í tölvunni var að finna hinn byltingarkennda Cell örgjörva, en eins og Ólafur segir tók það leikjahönnuði nokkurn tíma að læra almennilega á örgjörvann. PlayStation 3 var fyrsta PlayStation tölvan með HDMI-tengi í stað hins gamla Scart-tengis og þá var Blu-ray-spilari í tölvunni, og tóku Blu-ray-diskarnir við af DVD-diskunum eftirminnilegu.

Einhverjum þótti Spiderman-letur, sem notað var í nafni vélarinnar og greypt var í vélina sjálfa, hið vandræðalegasta á sínum tíma og hættu Sony- menn við það í síðari útgáfum vélarinnar. Stærsti keppinautur PS3 var Xbox 360 leikjatölvan frá Microsoft.

„Og hún var eiginlega bara PC tölva í dulargervi og það var tiltölulega auðvelt að búa til leiki á hana,“ segir Ólafur. Fyrstu leikirnir á PS3 hafi verið svokölluð port og leikirnir ekki eins flottir á PS3, fyrst um sinn.

„Og þá galt tölvan fyrir það. Þarna náðu Xbox-menn svolítið undirtökunum, en það var síðan eiginlega bara þurrkað út aftur með PS4 og nú PS5 má segja,“ segir Ólafur. Arftakinn, PlayStation 4, átti nefnilega töluvert auðveldari upphafsdaga og rauk tölvan út strax í byrjun með gullfallegum tölvuleikjum.

„Þannig að PlayStation-menn náðu vopnum sínum aftur. PlayStation 3 fór rólega af stað en hér á Íslandi varð hún vinsæl strax í upphafi og seldist alla tíð mjög vel, enda erum við mikið PlayStation-land, Ísland.“

Síðbúnir gullmolar

Ólafur segir að svo hafi hins vegar ræst úr PlayStation 3 tölvunni, þó að fólk minnist gjarnan PlayStation 2 og 4 með meiri hlýju. „Og á endanum voru framleiðendur farnir að leggja meiri metnað í þetta og búnir að æfa sig betur og finna betur út hvernig væri hægt að forrita fyrir þetta.“

„Því í rauninni voru þessi örgjörvi og tölvan sjálf mjög kraftmikil, en það var dýrt fyrir alla að læra eitthvað upp á nýtt,“ útskýrir Ólafur. Á endanum komu út leikir á vélina í algjörum sérflokki og nefnir Ólafur meðal annars Uncharted- leikina svokölluðu, með Nathan Drake í aðalhlutverki og Last of Us-tölvuleikinn sem framleiddir voru af Naughty Dog og þóttu einkar glæsilegir.

Þeir eru einmitt meðal hans uppáhaldsleikja á vélinni. „Ég er einmitt mjög mikill Uncharted-maður og Uncharted 2 kemur þarna út á þessum tíma og Red Dead Redemption 1 var náttúrulega klassískur. Last of Us var líka frábær og þessir þrír held ég að ég myndi segja að væru mínir uppáhaldstölvuleikir á þessa vél.“