Það sem mér hefur alltaf þótt heillandi við spennusöguformið er þegar höfundinum tekst að færa hana nær skáldsögunni með sterkri persónusköpun. Ég vil hafa bakgrunn í persónunum sem kemur ekki endilega glæpnum við – eða öðru því sem fjallað er um sem spennuefni. Þetta hef ég verið að kljást við og snýst einkum um eina persónu í bókunum mínum, hann Kára og örlög hans, segir Stefán Sturla Sigurjónsson, rithöfundur og leikari með meiru. Tilefnið er nýútkomin bók hans, Flækjurof. Hún er sú þriðja á fáum árum. Hann vinnur með stóra F-ið í titlunum, því áður komu út Fuglaskoðarinn og Fléttubönd.

Stefán Sturla svarar símanum í sumarblíðu heima hjá sér í Finnlandi, en síðustu þrjú ár hefur hann dvalið hluta ársins á Höfn við uppbyggingu lista-og menningarsviðs hjá framhaldsskólanum þar. Hann upplýsir að sögusvið Flækjurofs sé að einhverju leyti á Hornafirði.

„Ég tek mér skáldaleyfi og nefni enga staði beint en þeir sem þekkja til sjá fyrir sér einhverjar aðstæður sem þeir kannast við,“ segir hann og heldur áfram. „Flækjurof er ekki beint framhald af fyrri bókunum en viss þráður er spunninn gegnum þær allar, eins og tíðkast í þríleik. Í þessari nýjustu er ég að hnýta þær saman þó þær séu sjálfstæðar. Ég er líka með þrjá staði á landinu sem ég flétta saman í þessari lokaviðureign minni við söguna því hluti hennar gerist í Hornafirði, annar í Reykjavík og sá þriðji við hæsta foss landsins, Glym í Hvalfjarðarbotni. Svo maður gerist svolítið djúpur þá eru þessir staðir ekki valdir „af því bara“, heldur hafa þeir merkingu fyrir efnið.“

Stefán Sturla kveðst gefa frásögninni ákveðinn ljóðrænan blæ. „Í ljóði er sett saman hugsun sem mótast í fáum orðum í ákveðnum ryþma og gefur lesandanum möguleika á myndrænni upplifun af tilfinningu, viðburði eða sýn á tilveruna. Þess vegna er ljóðið svo sterkt form og skiptir miklu máli fyrir ritlistina yfir höfuð; í Flækjurofum tek ég enn dýpra í árinni til að finna leiðina í ljóðrænu formi frásagnarlistarinnar.“

Sjálfur kveðst Stefán Sturla alltaf hafa verið mikið fyrir spennusögur. „Þær eru auðvitað misjafnar en sérstaklega finnst mér þær góðar ef höfundar nálgast formið út frá skáldsögunni, en hafa spennuna eða glæpinn sem eitthvert „twist“ að leika sér að. Frekar en það sé öfugt, að spennan sé aðalatriðið en persónurnar litlar aukaverur sem leita lausna á því sem fjallað er um.“