Kvik­myndin E.T. var frum­sýnd á þessum degi fyrir 40 árum. Myndin sló strax í gegn og meta­regnið í kringum kvik­myndina er eigin­lega of langt til að telja upp hér.

Ste­ven Spi­el­berg var að­eins 36 ára þegar hann leik­stýrði þessu meistara­verki en hann fékk hug­myndina tveimur árum fyrr. Myndin fjallar í stuttu máli um Elliot, sem leikinn var af Henry Thomas. Hann vingast við geim­veruna E.T. sem verður eftir á jörðinni. Elliot og vinir hans vilja koma geim­verunni heim en ríkis­stjórn Banda­ríkjanna vill komast yfir þessa framandi veru.

Myndin var frum­sýnd hér á landi 9. desember 1982 á sama tíma og í London og París, sem þótti mjög frétt­næmt. Sagði Morgun­blaðið að kvik­mynda­verið Uni­ver­sal hefði ekki náð samningum við önnur Norður­lönd en Laugar­ás­bíó hefði náð að gera hag­stæða samninga. Á­góðinn af frum­sýningunni rann til þroska­skertra barna og sér­stök barna­sýning var fyrir börnin fyrr um daginn.

E.T. var frumsýnd hér á landi 9. desember 1982 á sama tíma og í London og París, sem þótti mjög fréttnæmt.

Myndin er af flestum talin ein af bestu kvik­myndum allra tíma. Það voru þó ekki allir jafn hrifnir. Þannig hringdi lesandi inn til DV 1983 þar sem var spurt hvernig í ó­sköpunum E.T. væri ekki bönnuð börnum.

Sagðist þessi lesandi efast um að börn yngri en sjö ára hefðu nægan þroska til að taka á móti mynd sem þessari. DV leitaði svara hjá Kvik­mynda­eftir­litinu, sem sagði að byrjun myndarinnar gæti vakið hræðslu hjá börnum. En boð­skapurinn væri góður og myndin mjög mann­leg í alla staði.

Linda María Þorsteinsdóttir
Mynd/Aðsend

Ein af þeim sem upp­lifði þessa hræðslu í upp­hafi myndarinnar var Linda María Þor­steins­dóttir. Hún var þriggja ára þegar hún sá E.T. birtast í bíóinu á Akur­eyri.

„Ég er fædd 1979 og ég verð svona of­boðs­lega hrædd yfir myndinni og snéri mér bara við. Ég held ég hafi horft meira á kallinn sem sat fyrir aftan okkur en myndina,“ segir Linda og hlær.

„Ég man eftir að hafa séð hana þegar ég varð eldri og það var svo­lítið merki­legt að ég varð enn þá pínu hrædd.“

Linda á þrjú börn og segir að það gæti vel farið svo að hún skelli E.T. í tækið í til­efni dagsins og horfi á myndina með þeim.

„Það er mjög sniðugt. Þeir sem eldri eru hafa séð myndina en sá yngsti sem er átta ára á eftir að sjá. Hann er að detta á aldurinn að geta horft á þessa frá­bæru mynd,“ segir Linda.