Kvikmyndin E.T. var frumsýnd á þessum degi fyrir 40 árum. Myndin sló strax í gegn og metaregnið í kringum kvikmyndina er eiginlega of langt til að telja upp hér.
Steven Spielberg var aðeins 36 ára þegar hann leikstýrði þessu meistaraverki en hann fékk hugmyndina tveimur árum fyrr. Myndin fjallar í stuttu máli um Elliot, sem leikinn var af Henry Thomas. Hann vingast við geimveruna E.T. sem verður eftir á jörðinni. Elliot og vinir hans vilja koma geimverunni heim en ríkisstjórn Bandaríkjanna vill komast yfir þessa framandi veru.
Myndin var frumsýnd hér á landi 9. desember 1982 á sama tíma og í London og París, sem þótti mjög fréttnæmt. Sagði Morgunblaðið að kvikmyndaverið Universal hefði ekki náð samningum við önnur Norðurlönd en Laugarásbíó hefði náð að gera hagstæða samninga. Ágóðinn af frumsýningunni rann til þroskaskertra barna og sérstök barnasýning var fyrir börnin fyrr um daginn.

Myndin er af flestum talin ein af bestu kvikmyndum allra tíma. Það voru þó ekki allir jafn hrifnir. Þannig hringdi lesandi inn til DV 1983 þar sem var spurt hvernig í ósköpunum E.T. væri ekki bönnuð börnum.
Sagðist þessi lesandi efast um að börn yngri en sjö ára hefðu nægan þroska til að taka á móti mynd sem þessari. DV leitaði svara hjá Kvikmyndaeftirlitinu, sem sagði að byrjun myndarinnar gæti vakið hræðslu hjá börnum. En boðskapurinn væri góður og myndin mjög mannleg í alla staði.

Ein af þeim sem upplifði þessa hræðslu í upphafi myndarinnar var Linda María Þorsteinsdóttir. Hún var þriggja ára þegar hún sá E.T. birtast í bíóinu á Akureyri.
„Ég er fædd 1979 og ég verð svona ofboðslega hrædd yfir myndinni og snéri mér bara við. Ég held ég hafi horft meira á kallinn sem sat fyrir aftan okkur en myndina,“ segir Linda og hlær.
„Ég man eftir að hafa séð hana þegar ég varð eldri og það var svolítið merkilegt að ég varð enn þá pínu hrædd.“
Linda á þrjú börn og segir að það gæti vel farið svo að hún skelli E.T. í tækið í tilefni dagsins og horfi á myndina með þeim.
„Það er mjög sniðugt. Þeir sem eldri eru hafa séð myndina en sá yngsti sem er átta ára á eftir að sjá. Hann er að detta á aldurinn að geta horft á þessa frábæru mynd,“ segir Linda.