Sögu­fé­lag gaf ný­lega út bókina Far­sótt – Hundrað ár í Þing­holts­stræti 25, eftir Kristínu Svövu Tómas­dóttur. Líkt og heiti bókarinnar gefur til kynna er þar rakin rík saga Far­sótta­hússins sem sinnt hefur ýmsum hlut­verkum í gegnum tíðina.

„Ég var að skrifa rit­gerð í sagn­fræði­námi fyrir mörgum árum þegar ég las fyrst um þetta hús og sögu þess,“ segir Kristín Svava. „Mér fannst hún mjög á­huga­verð og var búin að vera með hana bak við eyrað í þó nokkurn tíma.“

Þegar Kristínu vantaði síðan verk­efni fyrir fá­einum árum sótti hún um styrk til að skrifa um húsið.

„Ég gerði það kannski í pínu flippi, en svo fékk ég styrkinn og þá varð ég bara að gjöra svo vel og skrifa bókina!“

Það sem vakti á­huga Kristínar við sögu hússins var hve fjöl­breytt og dramatísk hún er.

„Það er ýmis­legt í sögu Reykja­víkur sem mér fannst spennandi sem er hluti af sögu hússins,“ út­skýrir hún.

Far­sótta­húsið var upp­haf­lega byggt sem fyrsta sjúkra­hús Reyk­víkinga árið 1884 þar sem fór einnig fram lækna- og ljós­móður­kennsla, þar á meðal kennsla í krufningum. Á tuttugustu öldinni varð húsið að svo far­sóttar­spítala. Húsið varð síðar gert að geð­sjúkra­húsi áður en það varð að gisti­skýli fyrir heimilis­lausa. Kristín Svava tekur fyrir fyrstu öld í sögu hússins, allt að árinu 1984, í bókinni.

Það mætti halda að ný­yfir­staðinn heims­far­aldur hefði mögu­lega verið kveikjan að bókinni en Kristín Svava segir að svo sé ekki.

„Ég byrjaði að skrifa bókina áður en Co­vid kom en far­aldurinn varpaði auð­vitað öðru­vísi ljósi á söguna sem ég var að vinna með,“ segir hún og hlær. „Þetta tíma­bil er ekkert rosa­lega langt frá okkur í sögunni – far­sóttar­spítalinn var þarna frá 1920 og fram til miðrar tuttugustu aldar – en þetta var allt annar veru­leiki þar sem alls konar sjúk­dómar sem búið er að út­rýma á Ís­landi í dag voru sí­ná­lægir, til dæmis tauga­veiki og barna­veiki.“

Meðal þess sem vakti á­huga Kristínar Svövu á far­sótta­sögunni var upp­lifun barna, en margir þessara sjúk­dóma voru ekki síst barna­sjúk­dómar.

„Þarna voru litlir krakkar sem þurfti að senda í ein­angrun og maður sér aug­ljós­lega hvað hug­myndir hafa verið öðru­vísi um það sem hægt var að leggja á börn,“ segir hún. „Þarna voru nokkurra ára gamlir krakkar sendir í ein­angrun fjarri fjöl­skyldum sínum, þau voru kannski fimm til sex ára og sáu mömmu sína bara í gegnum gluggann svo vikum skipti. Mæðurnar stóðu úti í Þing­holts­strætinu og veifuðu upp í gluggana til barnanna á sjúkra­húsinu.“

Krufningar, drep­sóttir og geð­lækningar áttu svo eftir að setja svip sinn á í­mynd hússins og upp spruttu ýmsar missannar sögur um það sem átti sér þar stað.

„Þetta er frekar til­komu­mikið viður­nefni á húsi, Far­sótt,“ segir Kristín Svava. „Drauga­sögurnar sem gengu um það tengdust ekki síst gamla lík­húsinu sem stóð þar beint fyrir aftan. Það var rifið um miðjan níunda ára­tuginn en maður getur enn þá séð gömlu gólf­flísarnar úr krufningar­stofunni í lík­húsinu fyrir aftan húsið í dag.“