„Nýrri tækni fylgja nýir möguleikar,“ segir Elsa Arnardóttir, forstöðumaður Textílmiðstöðvar Íslands á Blönduósi. Þar er hún að vísa til nýstárlegra verkfæra sem Textílmiðstöðin er að setja upp við Þverbraut 1.

Um er að ræða fyrsta Textíl-Lab Íslands.

„Við höfum verið með stafrænan vefstól í nokkur ár en nú voru að bætast við stafræn prjónavél, stafræn útsaumsvél og laserskeri. Líka nálaþæfingarvél, í henni er meðal annars hægt að vinna með íslensku ullina því hún þæfist svo vel.“

Elsa kveðst sjá fram á að öll þessi tæki bjóði upp á nýjar framleiðsluaðferðir í bland við eldri.

„Innblástur í nýsköpunina kemur úr menningararfinum,“ tekur hún fram.

Ætlað fyrir landið allt

Textílmiðstöðin er þátttakandi í stóru Evrópuverkefni, Centrinno H020, með samstarfsaðilum í textíl, að sögn Elsu.

„Við sóttum þar um styrk í Innviðasjóð og 75 prósent af nýju tækjunum eru greidd úr honum. Það var grundvöllur þess að geta fjárfest í þeim,“ lýsir hún.

Segir erlenda verkefninu hafa verið hleypt af stokkunum í september á síðasta ári, það muni standa í þrjú og hálft ár og stuðla að fjölbreyttu samstarfi og þekkingarmiðlun.

Nútímaleg vinnubrögð fylgja nýju tækninni

Elsa er spurð hvort hún kunni á græjurnar.

„Ekki ennþá en hún Ragnheiður Björk Þórsdóttir, veflistakona og kennari, kann vel á stafræna vefstólinn. Fab-Lab er þekkt tækni víða um land og Karítas Sigurbjörg Björnsdóttir á Sauðárkróki er ein sú flinkasta á Íslandi í að nýta laserskurðtækni, hún mun leiðbeina okkur með hana,“ segir Elsa bjartsýn.

„Það sem hér er að gerast er ætlað fyrir landið allt, svo því sé haldið til haga. Við eigum eftir að fá til okkar nemendur í hönnun og einstaklinga úr ýmsum greinum því við ætlum okkur að byggja upp staðbundið en alþjóðlegt dreifnám.“

Tveir ráðherrar klippa á þráðinn

Elsa segir stefnt að því að Textílmiðstöðin verði leiðandi í þróunarstarfsemi sem lýtur að nýsköpun úr íslenskum hráefnum svo sem ull og líftextíl, til dæmis úr lúpínu og kerfli.

„En við ætlum líka að halda fast í hefðbundna handverkið því allt styður hvað annað.“

Opnunarhátíð Textíl-Lab verður á morgun, 21. maí, klukkan 14. Þar verða ráðherrarnir Lilja Alfreðsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sem ætla í sameiningu að klippa á þráðinn og opna smiðjuna. n