Mér er ekki kunnugt um að haldin hafi verið stærri sýning á verkum barna hér á landi, né að víðtækara samstarf hafi átt sér stað milli vísinda- og listafólks og barna,“ segir Harpa Rut Hilmarsdóttir, verkefnastjóri barnamenningar hjá borginni, um samsýninguna LÁN. Sú er í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og í Borgarbókasafninu – Menningarhúsi, Spönginni í Grafarvogi. Auk þess er sýning í tengslum við hana í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg sem er búin að standa síðan fyrr í vetur.

Átta hundruð börn á skóla- og frístundasviði Reykjavíkur fjalla um málefni náttúrunnar á skapandi hátt á sýningunni. Áður höfðu þau notið fræðslu vísindamanna á borð við Magnús Tuma Guðmundsson og Sævar Helga Bragason og leiðsagnar um 30 listamanna, auk kennara í leikskólum og grunnskólum borgarinnar.

Tveir af þátttakendum sýningarinnar. Annar er aðeins að lagfæra gíginn!

„Börnin hafa verið að læra um sjálfbærni og í verkunum sínum eru þau að fást við flókin og stór mál eins og að fara vel með jörðina og heiminn í heild. Hugmyndir sínar útfæra börnin undir handleiðslu listafólksins og kennaranna og eru frekar að finna lausnir en að velta sér upp úr vandamálum. Það er svo fallegt. Listrænn stjórnandi verkefnisins og sýningarstjóri er Ásthildur Jónsdóttir, fræðimaður og myndlistarmaður. Hún réð listafólkið til starfa og kom sjálf með góðar hugmyndir,“ lýsir Harpa Rut.

Sýningin LÁN er opin fram á næsta sunnudag, 25. apríl. „Börn fá að sýna í þessum virtu húsum okkar á Barnamenningarhátíð Reykjavíkur,“ útskýrir Harpa Rut. „En þó sýningin standi stutt hefur undirbúningur og verkefnin í kringum hana verið lærdómur fyrir þau,“ segir hún og bætir við að frítt sé á sýninguna fyrir fullorðna í fylgd með börnum.

Barnamenningarhátíð Reykjavíkur er með nýju sniði í ár og stendur frá 20. apríl til 14. júní.

LÁN, Listrænt ákall til náttúrunnar, er hin líflegasta sýning.
Verk barnanna eru af ýmsum toga, stærðum og gerðum.