Þrettándabarnið Þórunn Lárusdóttir fagnar fimmtugsafmæli í dag. Hún segir gaman að eiga afmæli á þrettándanum en viðurkennir aðspurð að hún sakni þó sólarinnar í Sitges.

„Ég er rosalegt afmælisbarn og hef alltaf fagnað hverjum einasta afmælisdegi,“ segir Þórunn Lárusdóttir, söngkona, leikkona og leikstjóri, sem fagnar fimmtíu ára afmæli sínu í dag. „Það er gaman að eiga afmæli á þrettándanum og ég fæ yfir til mín vini og vandamenn í fiskisúpu í dag, að vanda.“

Þórunn og fjölskylda bjuggu um tíma í Sitges á Spáni en fluttu aftur til Íslands fyrir einhverju síðan. Saknar fjölskyldan ekkert Spánar í þessum íslensku vetrarhörkum?

„Þú getur rétt ímyndað þér!“ svarar Þórunn hlæjandi. „Ég sagði einmitt við dóttur mína um daginn þegar frostið var sem mest að mig mig langaði svo til Sitges að ég væri alveg að deyja.“

Samdrættir og söngdívur

Það var einmitt í Sitges þar sem Þórunn lærði kvikmyndagerð en hún er núna á fullu að fjármagna bíómynd. „Þetta er handrit sem ég skrifaði með vinkonu minni og er að vona að hún geti farið í framleiðslu í sumar,“ segir hún. „Þetta er skemmtilegt fjölskylduævintýri, með nóg af söngi, dansi, gríni og glensi.“

Þá er Þórunn einnig að æfa verkið Samdrætti eftir enska leikskáldið Mike Bartlett sem verður frumsýnt í Tjarnarbíói í febrúar í leikstjórn Þóru Karítasar Árnadóttur.

„Þetta er rosalega marglaga verk og bráðfyndið með djúpum undirtóni. Algjört konfekt fyrir leikarann,“ segir Þórunn um Samdrætti sem fjallar að vissu leyti um eitraða vinnustaðamenningu. „Það getur bæði verið hálfsúrrealískt og ekki - þetta fær mann til að spyrja sig spurninga eftir áhorfið.“

Á prjónunum hjá Þórunni eru þá óupptaldir tónleikar í Salnum í Kópavogi 14. janúar þar sem hún stígur á stokk ásamt vinkonum sínum Margréti Eir, Siggu Eyrúnu og Hönsu.

„Þetta eru skemmtilegir dívutónleikar þar sem við höfum tekið saman okkar uppáhalds leikhús- og söngleikjamúsík – ég hlakka rosalega til!“

Söngdívurnar Sigríður Eyrún, Margrét Eir, Þórunn Lárusdóttir og Jóhanna Vigdís Arnardóttir
Fréttablaðið/ERNIR

Grímuball af stærri gerðinni

Þórunn hefur venjulega þann sið að hlaða í stórt partí á afmælisdeginum en vegna aðstæðna í dag mun það aðeins frestast í ár. „Ég ætla ekki að halda upp á afmælisdaginn heldur afmælisárið,“ segir hún og er með ýmis plön til að framfylgja því.

Stærsta afmælispartíið til þessa var fertugsafmæli Þórunnar þegar hún hélt grímuball af stærri gerðinni.

„Ég fór alveg alla leið og það var ógeðslega gaman,“ minnist hún. „Ég var með vegleg verðlaun fyrir besta grímubúninginn sem gerði það að verkum að fólk setti þvílíkan metnað í búninginn. Það er svo gaman að halda svona grímuball því þá fer fólk að tala saman sem þekkist ekkert, enda er það líklega ástæðan fyrir því að þetta er upphaflega gert.“