Rithöfundurinn Satu Rämö var að gefa út 20. bókina. Allar eru á finnsku en fjalla um Ísland. Sú nýja nefnist Talo maailman reunalla – eða Hús á hjara veraldar.

Satu Rämö svarar símanum á Ísafirði og er nýbúin að gefa út bók um lífið í bænum – á móðurmáli sínu, finnsku. Á íslensku mundi bókin heita Hús á hjara veraldar.

„Við keyptum hér gamalt hús alveg við sjóinn og bókin fékk nafn sitt af því,“ segir Satu, sem hefur búið á Ísafirði í hálft annað ár með eiginmanni og tveimur dætrum.

„Það er gott að koma á svona stað, detta strax inn í samfélagið og finna sig velkominn. Ísafjörður er bær með stórt hjarta. Húsið okkar var byggt 1905 og er með fyrstu steinhúsum á Íslandi. Nú erum við í framkvæmdum eins og mikið er um í samfélaginu, þar sem eldri perlur eru nýttar, án þess að breyta öllu. Það er skemmtilegt verkefni.“

Hjartað tók aukaslag

Fyrst kveðst Satu hafa komið til Íslands 2003 sem skiptinemi í eitt ár.

„Ég hreifst af landinu og kom aftur og aftur til að ferðast um það. Eitt kvöld hitti ég manninn minn, Björgvin Hilmarsson, á Kaffibarnum og eftir það lá beint við að flytja sjálfa mig inn í landið!“

Spurð hvort Björgvin hafi prófað að búa í Finnlandi svarar hún: „Árið sem ég var skiptinemi á Íslandi var hann skiptinemi í Finnlandi. Hjartað tók aukaslag þegar ég heyrði það! Ég var á hans heimaslóðum í 101 Reykjavík og hann nálægt mínu hverfi í Helsinki.“

Satu segir þau reyna að fara oft til Finnlands með dæturnar sem eru ellefu og fimm ára.

„Sú eldri heitir Saga, við erum nöfnur því satu á finnsku þýðir saga. Sú yngri heitir Sæla og er sú fyrsta á Íslandi en það er þekkt nafn í Finnlandi,“ upplýsir hún.

Nýja bókin snýst um lífið á Ísafirði.

Fóru út á land í öllum fríum

Þau Satu og Björgvin bjuggu í 101 í áratug.

„Það er gaman í Reykjavík, fjölskyldan hans Björgvins og margir vinir okkar búa þar en við erum útivistarfólk og fórum í öllum fríum út á land svo við hugsuðum. Af hverju ekki að prófa að búa úti á landi?“ segir hún og heldur áfram. „Við völdum Ísafjörð því hér eru góðar fjallahjólaleiðir og gönguskíðabrautir. Náttúran er líka stórbrotin. Svo er engin sól í marga mánuði en á sumrin bjart allan sólarhringinn. Okkur finnst þetta allt svo rómantískt.“

Þegar Satu ber þjónustuna á Ísafirði saman við álíka stóra bæi í Finnlandi segir hún ólíku saman að jafna.

„Þar væru hvorki bakarí né bíó en hér er allt,“ segir hún. „Ég get unnið hvar sem er í tölvunni og Björgvin var í túristabransanum en fékk vinnu hjá Fjölmenningarsetrinu. Stelpurnar hafa eignast vini hér, sú eldri á líka góða vini í Reykjavík og fer ein á milli í flugi til að heimsækja þá eða þeir koma hingað.“

Bókaskrif uppáhaldsvinnan

Satu er með meistarapróf í hagfræði og BA-próf í íslensku. Hún er með auglýsingastofu og vinnur með fyrirtæki í Finnlandi.

„Svo skrifa ég bækur. Það er uppáhaldsvinnan en hún dugar ekki til að borga reikninga. Það er líka kostur fyrir mig að geta hitt fólk á Teams og Zoom og notað tungumálið mitt á hverjum degi.“ Hún kveðst skrifa bækurnar á finnsku, þær séu um 20 talsins, flestar um Ísland, ferðabækur, kennslubækur og bækur um lífið í landinu.