Guðrún Svava var í Meistaraskólanum frá síðustu áramótum og stefnir á að öðlast meistararéttindi þaðan í bifvélavirkjun næsta vor. Hún fékk 400.000 króna styrk frá Landsbankanum til þess. „Fyrsta önnin gekk mjög vel,“ segir hún og kveðst algerlega finna sig í þessari iðngrein, þó upphaflega hafi hún hafi skráð sig í hana með litla sem enga þekkingu.

„Ég var á listnámsbraut í Fjölbraut í Breiðholti og ætlaði að fara í Listaháskólann að lokinni útskrift en fékk þá bíladellu. Átti gamlan Golf og fór að spreyja felgurnar, pússa, grunna og laga ryðbletti en langaði að geta gert meira við hann svo þegar ég útskrifaðist stúdent í desember 2015 sótti ég um í bifvélavirkjun í Borgarholtsskóla í staðinn fyrir Listaháskólann.“

Nú ekur Guðrún Svava á Ópel Austria, árgerð 2007, og kveðst reyna að halda honum við sjálf. „Ég sótti um að fara á nemasamning hjá bílaverkstæði Heklu, samhliða námi mínu í Borgarholtsskóla og var valin úr hópi umsækjenda. Starfsfólkið í Heklu hefur tekið mér afar vel.“

Guðrún Svava segir bifvélavirkjun fjölbreytt fag. „Það eru engir tveir dagar eins í vinnunni og maður er alltaf að læra. Fær verkefni í hendur og þarf að finna út hvað sé að. Þá gildir að hafa einhverjar hugmyndir. Það er mikilvægt að kunna að lesa úr villum og bilanagreina, það er fyrsta skrefið,“ segir hún og telur listina hafa kveikt áhuga hennar á faginu. „Mér finnst ég á vera réttri hillu.“