Starfið leggst mjög vel í mig, segir Bergþór Pálsson söngvari um hið nýja embætti sitt sem skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar. „Það er auðvitað heilmikið nám að byrja í svona starfi, ýmis kerfi sem maður þarf að læra á og til að byrja með fer mikill tími í skriffinnsku og útreikninga. Við skiptum því á milli okkar, ég og aðstoðarskólastjórinn, hún Sigrún Pálmadóttir söngkona, og svo gerum við margt saman. Stundum er ekki hægt að gera eitthvað einn. Eins er ég með frábæran ritara, Fanneyju Rakel Árnadóttur, sem er mín hægri hönd. Ég leita til þeirra beggja.“

Bergþór setti skólann í byrjun vikunnar. Hann segir nemendur eitthvað á þriðja hundrað. „Þetta er stór skóli, það eru útibú á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri, þangað mun ég fara að fylgjast með og hlusta á tónleika og klappa.“

Þó Bergþór reki ekki ættir sínar vestur á firði hefur honum alltaf liðið þar vel, að eigin sögn. „Mér finnst ég eiga heima hér og finn kraft frá fjöllunum sem ég held að sé ein ástæða þess að hér býr dugmikið fólk. Það er reisn yfir bæjarbragnum og menningarlegur andi yfir öllu. Fólkinu hér hefur alltaf þótt vænt um tónlistarskólann sinn, sem betur fer, því það sem gerir samfélög lífvænleg og eftirsóknarverð er andlegt fóður í háum gæðaflokki, til að öllum líði vel í hjartanu. Þess vegna er góður tónlistarskóli svo mikilvægur, því tónlistin er eitt af því sem færir okkur kraft og gleði og innihald í lífið. Þetta vita Vestfirðingar.“

Búið var að ráða flesta kennara við skólann áður en Bergþór kom. „Ég réði einn,“ segir hann. „Það er brilljant ungur maður, Pétur Ernir Svavarsson píanóleikari, sem kemur einu sinni í mánuði til að þjálfa söngnemendur. Hann er einn af þeim snillingum sem hafa vaxið hér upp og er fyrrverandi nemandi í skólanum, það finnst mér gaman. Vonandi fæ ég fleiri fyrrverandi nemendur til að hafa Master Class-námskeið.“

Býst Bergþór við að breyta línum sem fyrirrennarar hans lögðu? „Nei, ég vil nú ekki halda því fram, starfið hefur verið í mjög góðu horfi, en ég er með ýmsar hugmyndir sem ég sé til hvort ég kem í framkvæmd, hugsa að ég geri það þegar fer að hægjast á skriffinnskunni. Mig dreymir um margt skemmtilegt.“

Eiginmaðurinn, Albert Eiríksson matarbloggari, flytur líka vestur, að sögn Bergþórs.

„Við erum að komast í bráðabirgðahúsnæði niðri á Eyrinni, með yndislegu útsýni, en það er húsnæðisekla og fólk er svo vingjarnlegt að hafa áhyggjur af því, það heilsar okkur á götunum og spyr hvort við séum búnir að finna íbúð. Albert er náttúrlega í verkefnum hér og þar, eins og hann hefur alltaf verið, og flögrar á milli. Hann sér líka um húsið sem við keyptum í sumar rétt áður en ég réði mig. Það var alveg óvart! En ég grennist þegar Albert er fyrir sunnan, það er eini kosturinn við að hann sé í burtu!“